Samkeppnislög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 18:02:12 (5382)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég mun ekki halda langa ræðu um samkeppnislögin sem slík. Það hefur komið fram að um vinnslu málsins hefur ríkt mikil samstaða og samhugur í efh.- og viðskn. Við höfum fjallað um málið á fjölda funda, kallað til hagsmunaaðila og unnið frv. samviskusamlega að mínu mati og gert á því veigamiklar breytingar. Ef við förum út í höfundarrétt er spurning í mínum huga um hvers frv. er eins og það er núna. Að forminu til er það efh.- og viðskn. sem ber það inn í þingið aftur. Að mínu mati er það mikill prófsteinn á raunverulegan vilja manna til að taka upp nýja og breytta starfshætti á Alþingi hvernig menn brugðust við þeirri að mínu mati réttmætu kröfu að í afgreiðslu málsins yrði skilið á milli samkeppnislaganna fyrir hinn íslenska markað, sem er alger samstaða um, og væntanlega umdeildasta kafla fylgifrv. EES sem er XI. kaflinn í frv.
    Það er góðra gjalda vert að ráðherrar komi hér upp og þakki nefndum fyrir vel unnin störf en séu síðan ekki tilbúnir á lokastigi til að koma til móts við aðila málsins og vinna á þeim grunni að hér sé hið sjálfstæða Alþingi að vinna og ekki unnið eftir beinum fyrirmælum og fyrirskipunum ráðherra eða ráðuneyta. Þetta er að mínu mati kjarni málsins og grundvallaratriði ef menn meina eitthvað með því að það eigi að breyta starfsháttum Alþingis. Ég hef reyndar margsinnis tekið undir það sjónarmið í ræðum á Alþingi í vetur en að mínu mati verður það ekki gert á þann hátt að sjálfstæði Alþingis verði skert heldur þannig að Alþingi og framkvæmdarvaldið verða að umgangast hvort annað með fullri virðingu. Að annar aðilinn geti ekki alltaf skákað í því skjóli að hann hafi meiri hluta hér og geti rúllað yfir, eins og í þessu tilfelli, þá aðila sem eru búnir að leggja fram alla sína starfskrafta og unnið í sameiningu að því að fá sem farsælasta lausn á málinu.
    Það er svo annað mál, eins og ég sagði í þingskapaumræðu í dag, að að mínu mati væri hin rétta málsmeðferð varðandi EES-málin sem eru óafgreidd að forsætisnefnd og formenn þingflokka reyndu að ná samkomulagi um málsmeðferð því ég tek undir það með formanni míns flokks að þegar Alþingi er búið að staðfesta samninginn um EES ber því skylda til að framfylgja því sem fylgir með. En það er ekki sama hvernig að því er farið og að mínu mati væri það mikill prófsteinn á hvort menn vilja taka upp nýja starfshætti á Alþingi að menn gætu komist að samkomulagi um þá málsmeðferð. Hins vegar er ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætlar að keyra þetta mál í gegn í því formi sem það er núna. Við því er ekkert að gera. Þeir hafa heiðurinn af því sem að því standa.
    Ég ítreka við hæstv. forseta og hæstv. ríkisstjórn hvort ekki sé miklu meiri sómi að því bæði fyrir Alþingi og ríkisstjórn að menn ræði í einlægni hver sé hinn eðlilegi framgangsmáti varðandi EES-málin sem eftir eru. Ég tel hina einu réttu leið vera þá að við höldum áfram að mæla fyrir þeim frv. sem eftir eru, koma þeim til nefndar og vinna að þeim þar. Ég get alla vega sagt fyrir mína parta að ég hef ekki trú á að þar verði nein fyrirstaða gegn því að hin málefnalega vinna fari fram og síðan verði samkomulag um afgreiðslu málanna þegar ljóst verður hvað úr EES verður.
    Mér finnst hins vegar að það sem hér er verið að gera sé fyrst og fremst einhver misskilinn metnaður og þrákelkni sem kannski bitnar ekki síst á þeim í hópi stjórnarandstæðinga sem vilja gjarnan vinna

að því að samningarnir við Evrópu fái farsælan endi sem verði okkur til sem mestra heilla. Ég tek undir með þeim sem það hafa rætt að EES, þ.e. Evrópusamvinna og þá með litlum stöfum eins og hæstv. viðskrh. ræddi um áðan, er veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og tökum þátt í í dag með okkar miklu viðskiptum við Evrópu.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en ítreka það sjónarmið mitt að ég tel að bæði Alþingi og ríkisstjórn væri sómi að því að komast að samkomulagi um það hvernig menn ætla að afgreiða fylgimál samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði.