Verðbréfaþing Íslands

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 18:22:26 (5384)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. frá efh.- og viðskn. við brtt. sem er á þskj. 394. Nefndin gerir það að tillögu sinni að 4. tölul. þeirrar brtt. verði svohljóðandi, með leyfi forseta.
    8. gr. frv. orðist svo:
    ,,Þingaðilar eru þeir nefndir sem hafa rétt til þess að setja fram tilboð og eiga viðskipti með verðbréf á Verðbréfaþinginu. Þingaðilar geta orðið:
    1. Seðlabanki Íslands,
    2. Verðbréfafyrirtæki, viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar lánastofnanir svo og aðrir lögaðilar sem heimild hafa til að stunda verðbréfaviðskipti lögum samkvæmt.
    3. Erlendir lögaðilar sem hafa heimild til að stunda verðbréfaviðskipti hér á landi.
    Þingaðilar einir hafa rétt til að setja fram tilboð og eiga viðskipti með verðbréf á Verðbréfaþinginu.``
    Í frv. eins og það var upphaflega lagt fram var gengið út frá því að verðbréfamiðlarar ættu rétt á að gerast þingaðilar. Í brtt. á þskj. 394 hafði efh.- og viðskn. gengið þannig frá málinu að verðbréfamiðlarar gætu ekki orðið aðilar að þinginu heldur einungis verðbréfafyrirtæki. Það komu fram athugasemdir við þetta frá Seðlabanka Íslands sem benti nefndinni á að æskilegt væri að viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar lánastofnanir og reyndar verðbréfamiðlarar ættu að hafa aðild að þinginu.
    Niðurstaða efh.- og viðskn. er sú að leggja það til að verðbréfamiðlarar hafi almennt ekki aðild að þinginu eins og nefndin hafði upphaflega gert ráð fyrir en vill samt leggja til að viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar lánastofnanir svo og aðrir lögaðilar, sem hafa heimild til að stunda verðbréfaviðskipti lögum samkvæmt, geti orðið aðilar. Þar á meðal er aðili eins og Lánasýsla ríkisins sem fellur undir aðra lögaðila sem hafa heimild til að stunda verðbréfaviðskipti og þess vegna er gert ráð fyrir að hún geti orðið aðili að þinginu.