Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 18:55:49 (5387)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Herra forseti. Nokkur orð vegna þess sem fram kom í ræðum þeirra hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 7. þm. Reykn. Í fyrsta lagi vegna þess sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykn. um frumvarpstextann. Í 2. gr. frv. varðandi 1. og 2. tölul. 4. gr. laganna frá 1991, þá vil ég ítreka að textinn er í samræmi við bókun 4 með frv. um EES og þar með viðauka XII við samninginn. Það eru ekki sömu orðin, það er rétt hjá hv. þm. En það sem þarna segir er í fullkomnu samræmi við samningstextann og bókunina sem fylgdi í fjórða lagi með frv. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Þarna er haldið til haga grundvallarreglunni um bann við erlendri fjárfestingu í fisveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Síðan vita allir raunsæir menn að þarna eru framkvæmdarörðugleikar. Þetta er vandasamt úrlausnarefni sem ákveðin tillaga er gerð um í frv. hvernig leysa skuli. Það þjónar reyndar líka tilgangi gagnaðila okkar í samningunum, sem sé þeim að í þessu felst viss vörn gagnvart því að fyrirtæki geti girt sig af fyrir erlendri þátttöku með því að eignast eitt bréf í Granda hf. Þetta er bakgrunnur tillögunnar sem þarna er gerð. Ég þykist vita að um hana geti menn eftir atvikum orðið sammála.
    Um orkumálin vil ég taka fram að það hafa ekki verið í undirbúningi tillögur um að breyta Landsvirkjun í hlutafélag. Væri það gert er það algerlega í valdi Alþingis að búa svo um hnúta að það fyrirtæki yrði eingöngu í eigu opinberra aðila. Það sem ég vil leggja mikla áherslu á er að Alþingi hefur samkvæmt þessum tillögum í hendi sér hvernig framtíðarmálum orkuvinnslu og orkudreifingar verður skipað. Þar hljótum við að sjálfsögðu að leita að skipulagi sem skilar bestum árangri. Þar er sala ekki á dagskrá svo ég viti.
    Ég vík í þriðja lagi að bankamálunum. Nú er í undirbúningi frv. um stofnun hlutafélaga um ríkisbankana. Ákvörðun um sölu á hlutum í þessum félögum er samkvæmt þeim hugmyndum alveg sjálfstæð ákvörðun og krefst atbeina og sérstakrar ákvörðunar Alþingis.
    Vegna orða hv. 1. þm. Norðurl. v. þar sem hann vék að orðanotkun á einkavæðingarþingi BSRB um það hvað væri heiðarleg og hvað óheiðarleg einkavæðing, þá leynist ekki í þessum áformum neitt annað en heiðarleg afstaða, sú að það geti verið rétt og eðlilegt að fella rekstur allra fjármálastofnana undir sömu lög. Það var skilningur minn á samþykktum flokksþings Framsfl. frá því í nóvember á liðnu ári en að sjálfsögðu er það forustumanna þess flokks að túlka þau orð og skilja æðri skilningi en mínum. Við það geri ég enga athugasemd. Hins vegar virðist það gefa auga leið að þarna ríki þau skynsamlegu sjónarmið að ekki eigi að hafa mismunandi rekstrarform fyrir sömu athafnir í ríki sem vill hafa sanngjarnar og almennar leikreglur í sínu atvinnulífi og reyndar í sínu þjóðlífi yfirleitt.

    Ég vildi svo loks segja um það sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykn. að ég fagna sinnaskiptum hans hvað varðar burði okkar heilbrigðisþjónustu. Ég var alls ekki að liggja honum á hálsi fyrir að hafa skipt um skoðun en vildi eingöngu draga athygli að því, af því að hann nefndi sérstaklega hjartaaðgerðirnar, að hann hefði áður og fyrr efast um getu okkar til þess arna. Ég tek undir það með honum að á mjög mörgum sviðum eiga Íslendingar á að skipa úrvalsmönnum sem geta staðist samkeppni á heimsmarkaði en til þess að sanna það þurfa þeir aðgang að honum. Það er aðall þessa máls að tryggja stöðu Íslendinga í viðskiptakerfi heimsins. Þannig og aðeins þannig nýtast hæfileikar þjóðarinnar og aðstaða hennar til að skapa hér farsælt mannlíf og hagsæld í landinu.
    Það eru alveg réttar ábendingar hjá hv. 7. þm. Reykn. að það þarf að leita allra leiða til þess að koma þessum 600 gwst. sem eru á lausu eins og orkubúskaparmálum okkar er nú háttað. Það má hins vegar ekki gera þannig að það verðfelli alla orkusöluna hjá orkufyrirtækjunum, þá erum við engu bættari. En ég vil benda á það af því að fiskvinnslan var nefnd að nú stendur einmitt yfir sérstakt átak á vegum iðnrn., Landsvirkjunar og orkudreifingarfyrirtækja að finna leiðir til þess að nýta meiri raforku í fiskvinnslunni, ekki síst í fiskimjölsframleiðslunni þar sem er mjög veruleg orkunotkun. Reyndar eru fleiri mál í athugun einmitt á þessu sviði og hafa verið allt undanfarið ár. Ég tel að þar hafi Landsvirkjun m.a. gert ýmis tilboð í málinu sem eigi að geta laðað fram aukna innlenda orkunotkun sem við sannarlega þurfum á að halda.
    Ég held að það sé vafalaust rétt að við þurfum að gæta okkar á því að verða ekki gleyptir af alþjóðasamtökum sem við gerumst aðilar að. Það var hérna einn ágætur bridsspilari um daginn frá Pakistan sem heitir Zia Mahmood. Mér segir hugur um að hv. 7. þm. Reykn., fyrrv. forsrh., hafi einhvern tíma slegið í spil við hann. Zia lýsti Íslendingum svo að þeir væru hörkuþjóð. Annars staðar ætu hákarlar menn en hér ætu menn hákarla. Það er samkvæmt því lögmáli sem við eigum að sjálfsögðu að starfa, að við erum hvergi smeykir við hákarlana. Með því hugarfari eigum við að nálgast okkar samstarf á alþjóðavettvangi en ekki með því að vera ofurseldir þeirri hugmynd að fámennið valdi því sjálfkrafa að við getum ekki haldið okkar hlut.