Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 19:03:06 (5388)


     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Herra forseti. Nú er það síður en svo að ég sé að finna að textanum eins og hann stendur í frv. um heimild erlendra aðila til að fjárfesta í fiskvinnslu og reyndar fagna ég þeim texta. En ég kem því ekki heim og saman að hann sé sá sami og í fskj. 4. ( Viðskrh.: Í samræmi við.) Ég las áðan og með leyfi forseta lagði ég áherslu á þessa setningu: ,,Þessi höft skulu ekki koma í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila eða ríkisborgara sem eru ekki með lögheimili á Íslandi, félögum sem taka aðeins óbeinan þátt`` o.s.frv. Hins vegar stendur í frv.: ,,Íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir eiga og reka fyrirtæki . . .  `` Þetta er rétt, þetta er ágætt. Ég fagna þessu mjög. Reyndar sýnist mér þá að síðari málsgreinin, sem segir að viðskrh. geti með úrskurði skuldbundið fyrirtæki til að selja hlut í fiskvinnslu o.s.frv., sé óþörf því að fyrri málsgreinin er svo fortakslaus og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.
    Það er hins vegar ekkert svar út af fyrir sig hjá hæstv. ráðherra, sem styðst við meiri hlutann á Alþingi, að segja að það sé Alþingis að ákveða hitt og þetta. Spurningin er: Leggur ráðherra til við Alþingi hitt og þetta, t.d. að selja 25% hlutabréfa í bönkunum strax í upphafi? Það er í raun og veru spurning mín. Hitt er bara útúrsnúningur að það sé Alþingis að ákveða. Svo að ég vil enn þá spyrja: Hyggst ráðherra leggja slíkt til?
    Bridsspilarinn sem ráðherra nefndi er frábær og góður en ég held að menn verði þó að læra af honum og fleirum að sníða sér stakk eftir vexti og ráðast ekki á hamarinn þar sem hann er ókleifur.