Heilbrigðismál

115. fundur
Miðvikudaginn 24. febrúar 1993, kl. 15:04:36 (5395)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin sem setið hefur núna tæp tvö ár hefur fundið fyrir því að í viðleitni sinni til þess að draga úr útgjöldum ríkisins og kostnaði hafa sprottið upp mjög margir vinir eyðslunnar og útgjaldanna en ríkissjóður á fáa vini eins og þekkt er. Ekki síst hefur þetta komið fram gagnvart viðleitni til þess að spara í heilbrigðismálum og hefur ríkisstjórnin, og auðvitað hæstv. heilbrrh. sérstaklega, þurft að sitja undir mjög miklum ómaklegum árásum vegna þessarar viðleitni.
    Við hljótum að horfast í augu við þær staðreyndir að tekjur og gjöld ríkisins hafa vaxið mun hraðar hjá okkur en hagvöxtur hefur vaxið á undanförnum árum. Útgjöldin hafa vaxið mun hraðar en tekjurnar þó að tekjurnar til ríkisins hafi einnig vaxið meira en hagvöxtur hefur gefið tilefni til. Þessi mikli vöxtur útgjaldanna hefur leitt til þess að ríkissjóður hefur verið rekinn með sífelldum halla og skuldasöfnun hefur átt sér stað í stórum stíl.
    Afleiðingar þessa eru auðvitað margar. Við þekkjum allmargar þeirra afleiðinga en sú beinharða sem blasir við er auðvitað sú að í þeim fjárlögum sem við afgreiddum fyrir ekki löngu síðan verðum við að verja 10 milljörðum kr. í vaxtagreiðslur eða tæplega tíundu hverri krónu sem við öflum verðum við að verja til vaxtagreiðslna. Ef við hefðum hagað okkur skynsamlegar varðandi útgjöldin ættum við drjúgan hluta þessara peninga úr að spila.
    Þegar við ræðum heilbrigðismálin sérstaklega og þær aðgerðir sem menn hafa gripið til þar er málum gjarnan lýst svo, og það hefur þegar verið gert í nokkuð þessari umræðu, eins og heilbrigðismálin séu komin í afskaplega erfiða stöðu og við getum ekki borið okkur saman lengur við það besta í veröldinni á því sviði eins og við höfum getað gert. Allar tölur segja þó allt aðra sögu og draga upp allt aðra mynd. Enn þá erum við í hópi þeirra þjóða sem verja mestum og hæstum fjárhæðum til heilbrigðismálanna. Það eru aðeins fjórar þjóðir sem verja meiri framlögum í þessu skyni en Ísland gerir. Ef eingöngu er litið til hins opinbera er reyndar aðeins eitt ríki sem af opinberri hálfu ver meiri fjármunum til heilbrigðiskerfisins en Ísland. Það er staðan sem menn horfa á í þessum málaflokki.
    Önnur ríki hafa þess vegna rétt eins og við orðið að grípa til ráðstafana á þessu sviði, orðið að grípa til aðgerða til að hemja vöxt útgjalda heilbrigðismálanna. Við þekkjum nýjustu dæmi þaðan bæði frá Svíþjóð og Þýskalandi. Þessi ríki eru að glíma við nákvæmlega sama vandann og við en þar dettur stjórnmálamönnum auðvitað ekki í hug að blása á að hér sé um mikinn vanda að ræða og neita sumir hverjir að taka þátt í að leysa hann.
    Ég tel reyndar að hæstv. fyrrv. heilbrrh. hafi haft mjög góðan vilja til þess að sporna við vexti þessara útgjalda, en þörfin er enn þá brýnni hjá okkur núna þegar hinar sameiginlegu tekjur þjóðarinnar hafa verið að dragast saman. Það var auðvitað þægilegra við að eiga meðan tekjurnar jukust jafnt og þétt en þegar samdráttur er er óhjákvæmilegt að draga saman í þessum efnum. Þegar við þurfum að rifa seglin, eins og menn geta varla deilt um að við þurfum að gera þarf það ekki að koma nokkrum manni á óvart að heilbrigðismálin hljóta að vera þar ofarlega á blaði vegna þess að heilbrigðismálin taka svo stóran hluta af öllum okkar útgjöldum að það er ekki boðlegt að segja: Við getum gripið til þess að draga úr útgjöldum ríkisins án þess að snerta þennan mikilvæga málaflokk.

    Útgjöld heilbr.- og trmrn. eru áætluð 41,5% af heildarútgjöldum ríkissjóðs á þessu ári. Þessi útgjöld voru 35% fyrir örfáum árum síðan. Þarna hefur því orðið gríðarlegur vöxtur. Þrátt fyrir að ríkisstjórninni, og hæstv. heilbrrh. sérstaklega, hafi tekist að lækka nokkuð útgjöld til heilbrigðismála er staðreyndin sú að útgjöld ríkissjóðs til þessa málaflokks eru að raungildi hærri í ár en voru á síðasta heila ári ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1990. Menn eru sem sagt ekki að skera niður í þessum efnum heldur að sporna við að vöxturinn fari úr öllum böndum. Útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála hafa vaxið um 5--6% að raungildi á ári undanfarna áratugi og mönnum hefur aðeins tekist að draga úr þessum vexti. Útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála hafa lækkað um 2 milljarða frá 1991 til fjárlaga 1993 og umtalsverður sparnaður hefur náðst í almannatryggingum og þá helst í lyfjaútgjöldum. Það er staðreynd og athyglisverð staðreynd að tekist hefur að ná þessum árangri án þess að dregið hafi verið úr þjónustu að neinu marki og án þess að slakað hafi verið á hinum miklu gæðum sem heilbrigðisþjónustan hér á landi býr yfir.
    Auðvitað er það svo að hluti af þessum árangri er vegna aukinnar kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustunni. Þannig hefur eftirspurn verið stýrt til að mynda í ódýr lyf og komur til lækna af litlu tilefni takmarkaðar með afnámi fríkorta. Þrátt fyrir þessar breytingar --- það verða menn að hafa í huga --- er hlutur einstaklinga í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi lægri en víðast hvar annars staðar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Aukin þjónustugjöld eru ekki fyrst og fremst hugsuð til að auka tekjur ríkissjóðs, þó þau hafi þann ánægjulega fylgikvilla, heldur eru þessi gjöld fyrst og fremst hugsuð til að efla og auka kostnaðarvitund einstaklinganna og beina eftirspurninni að hagkvæmari lausnum. Það hefur tekist með aðgerðum hæstv. heilbrrh.
    Við skulum hafa það í huga að flest eða öll ríki OECD eru að reyna markaðslausnir af þessu tagi og reyndar í miklu ríkari mæli en við Íslendingar erum að gera. Hlutur heilbrigðisþjónustunnar í framfærsluvísitölu er nú í febrúar 1993 2,8%. Til samanburðar var hlutfallið 2% 1968, 1,7% 1984, 2,3% árið 1988 og 2,5% í nóvember 1992. En nú er það sem sagt 2,8%. Til samanburðar er hægt að geta þess að orlofsferðir til útlanda vigta 2,9% í framfærsluvísitölunni.
    Stjórnvöld hafa leitast við að koma á hóflegum notendagjöldum ásamt því að hagræða og færa til útgjöld innan heilbrigðisþjónustunnar til að mæta nýjum verkefnum. Þess hefur verið gætt að enginn þurfi að neita sér um þjónustu vegna óhóflegs kostnaðar og heilsugæslan er öllum opin með fyrirbyggjandi læknishjálp fyrir mjög hóflegar greiðslur, lágar greiðslur.
    Það væri hins vegar bjartsýni að segja að því verki að hagræða í heilbrigðisþjónustunni sé lokið og verður sennilega seint eða aldrei lokið. Við hljótum að halda því verki áfram. Við hljótum að þurfa að koma í veg fyrir sóun og lækka verð á þjónustunni. Hvers vegna hljótum við að þurfa að gera það? Vegna þess að staðreyndirnar sýna að eins og aldurssamsetningu þjóðarinnar er háttað mun þessi kostnaður aukast verulega á næstu árum. Til þess að við getum borið þann kostnað og risið undir að veita þá heilbrigðisþjónustu sem við kjósum hljótum við að halda áfram að hafa mjög vakandi auga með öllum útgjöldum og reyna að gera þessa þjónustu hagkvæma í öllum myndum.
    Við Íslendingar búum við eitt besta heilbrigðiskerfi sem þekkist. Við erum stolt af því heilbrigðiskerfi. Það heilbrigðiskerfi hefur í engu skaðast á undanförnum árum. Þvert á móti eru menn að tryggja að við getum áfram búið við traust og öruggt heilbrigðiskerfi í landinu. Ég tel að hæstv. heilbrh. hafi gengið fram vasklega í þessu máli. Hann hefur þurft að sæta mjög svo ómaklegum árásum slag í slag. Hann á miklu fremur heiður skilið fyrir það verk sem hann hefur tekið að sér að vinna. Og ég tel að hann vinni þau bæði með hagsmuni ríkissjóðs í huga en þó ekki síður og fyrst og fremst með hagsmuni þeirra í huga sem þurfa heilbrigðisþjónustu við í landinu.