Heilbrigðismál

115. fundur
Miðvikudaginn 24. febrúar 1993, kl. 15:14:39 (5396)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra var að lýsa því hér áðan að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu hefði síðustu tíu ár aukist úr 6,5% af vergri landsframleiðslu í rúm 8%. Þetta munu raunar vera upplýsingar sem eru í pésa sem hann hefur látið dreifa hér. Ég vil gagnrýna að verið sé að miða hér við verga landsframleiðslu þegar verg landsframleiðsla dróst saman milli áranna 1991 og 1992 um 4,1%. Staðreyndin er að engin aukning hefur orðið í landsframleiðslu frá árinu 1985 og nú áttunda árið í röð. Því er ekki raunhæft þegar landsframleiðslan hefur dregst saman að bera það saman og tala um aukningu í heilbrigðisþjónustu miðað við verga landsframleiðslu. Að sjálfsögðu er það aukning þegar landsframleiðsla dregst saman þó það sé ekki raunaukning í heilbrigðisþjónustunni.
    Virðulegur forseti. Þegar lagt var fram frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 var m.a. tilkynnt að sparnaði skyldi náð í heilbrigðiskerfinu. Í því skyni var byrjað að rótast í skipulagningu sjúkrahúsanna í Reykjavík. Það var rætt um sameiningu þeirra að einhverju leyti. Uppsagnir voru á Landakoti og á tímabili vissi starfsfólkið þar ekki sitt rjúkandi ráð. Landakot er í raun og veru í sárum eftir allar aðgerðirnar þá. Þar hefur legudögum fækkað um 22%, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan, á milli áranna 1991 og 1992 og innlögnum fækkað um 650. Þar af leiðandi hefur auðvitað allur rekstrarkostnaður þess spítala minnkað um umtalsvert. Að færa bráðavaktirnar frá Landakoti hefur haft peningalegan sparnað í för með sér en eftir er að meta áhrifin á þjónustu spítalans, hvort sú þjónusta önnur sem þar er er hagkvæmari eða betri. Hefur hæstv. ráðherra skoðað framleiðnina á þeim spítala? Hvaða stefna er yfirleitt annars uppi í málefnum Landakots til lengri tíma litið?

    Svo eru það allar breytingarnar á lyfjareglugerðunum. Það var boðað að koma ættu ný lög um breytingu á lyfsölulögum. Þau hafa ekki enn komið þannig að þær breytingar sem verið er að gera taka yfirleitt alltaf til reglugerðar.
    Ef við lítum á tölulegar staðreyndir um framlög til heilbrigðismála í fjárlögum eru þær þessar:
    Í frv. til fjárlaga árið 1992 er heildarfjárframlag til heilbr.- og trmrn. rúmlega 43 milljarðar og 384 millj. kr. Það varð síðan í fjárlögunum 43,9 milljarðar. Hækkun varð meðan verið var að vinna fjárlögin í kringum 600 millj. kr. Það var því strax sýnt að markmiðið náðist ekki í fjárlagagerðinni. Síðan komu fram fjáraukalög fyrir árið 1992 á sl. hausti þar sem gert er ráð fyrir hækkun til þessa málaflokks um 1,6 milljarða kr. Þó eru ekki öll kurl til grafar komin þar sem enn er ágreiningur um 400 millj. kr. hækkun til sjúkratrygginga einmitt vegna lyfjakostnaðar. Mesta hækkunin í fjáraukalögum er einnig til Tryggingastofnunar, tæpar 700 millj., og svo til Atvinnuleysistryggingasjóðs upp á 709 millj.
    Það er því alveg ljóst að hækkun til heilbrigðis- og tryggingamála verður á heildina litið allmiklu hærri en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Eins og ég sagði áðan er í fjárlögum ársins 1992 gert ráð fyrir tæpum 44 milljörðum til heilbrigðis- og tryggingamála almennt. Í fjáraukalögum þessa sama árs er svo gert ráð fyrir a.m.k. rúmum 2 milljörðum til viðbótar. Þá erum við komin með fjárlög ársins 1992 fyrir þennan málaflokk í rúma 46 milljarða. Síðan er í fjárlögum þessa árs gert ráð fyrir 46,1 milljarði.
    Svo eru menn að tala um að það hafi orðið sérstaklega mikill sparnaður, 2 milljarða kr. sparnaður jafnvel á milli ára, og nefna sjúkrahúsin í Reykjavík með um 700 millj. kr. sparnað. Sá sparnaður er kannski tölulega fyrir hendi og ætla ég ekki að rengja það hvað varðar þann afmarkaða þátt en þá horfum við aðeins á beinan peningalegan sparnað. Hvernig hefur sá sparnaður náðst? Með því að sjúklingar greiða meira fyrir þjónustuna. Það er staðreynd. Það getur líka verið vegna þess að þjónustan hafi minnkað á sjúkrahúsunum og fleiri deildir séu lokaðar, sem dæmi eru um í sambandi við þann sparnað sem nú er verið að ræða um á sjúkrahúsunum yfirleitt yfir landið. Sá sparnaður hafi náðst með því að fleiri deildum hafi verið lokað en raunverulega hafi síðan þurft þegar árið er gert upp. Vonandi verður það til þess að þær deildir verði ekki lokaðar á yfirstandandi ári. Það er líka fólgið í því að sjúklingar eru sendir heim fyrr en áður var. Það getur líka verið í því fólgið að biðlistar séu lengri. Það var reyndar fullyrt í júní 1992 af hæstv. heilbrrh. að biðlistar á sjúkrahúsum hefðu ekki lengst miðað við árið áður. En þess ber að geta að þá var sumarleyfi fyrir höndum og lokanir deilda þannig að að listinn hefur vafalaust lengst seinni hluta ársins.
    Ríkisendurskoðun hefur verið falið að gera úttekt á rekstri sjúkrastofnana og skoða þá hagræðingu sem þar á að vera komin á. Nú er auðvitað ekki nóg að segja að 700 millj. hafi sparast í rekstri ef það kemur niður á þjónustunni og í því er fólginn aukinn kostnaður sjúklinga og kostnaður Tryggingastofnunar hefur aukist að sama skapi. Ef fólk getur ekki komist að á sjúkrastofnunum þá leitar það til sérfræðinga og þeim er greitt frá Tryggingastofnun.
    Lyfjakostnaðarmálið er svo kapítuli út af fyrir sig. Þar hefur reglugerðum verið breytt á nokkurra vikna fresti en í raun hefur aldrei fengist nein reynsla á hvernig þær breytingar virka. Þar er hringlandahátturinn í algleymingi hjá hæstv. heilbrrh. og virðist þar vera viðhöfð sú aðferð að reyna að skjóta í mark fríhendis og tilviljun ræður hvort örin hittir og svo er reynt að nýju til að vita hvort betur tekst til.
    Raunhæfan sparnað í heilbrigðiskerfinu er fyrst hægt að tala um ef gerð er áætlun til lengri tíma og verkefnum forgangsraðað. Einu ráðin sem hefur verið beitt eru niðurskurður á fjármagni til sjúkrahúsþjónustu og læknisþjónustu. Öruggasta leiðin til að lækka þessi gjöld væri að reyna að koma í veg fyrir sjúkdóma. Draga úr tíðni sjúkdóma eða afleiðingum þeirra. Fyrirbyggjandi aðgerðir ættu í mun meira mæli að vera hlutverk heilbrigðisþjónustunnar.
    Það má líka nefna að sú hagstjórn sem kemur í veg fyrir atvinnuleysi skilar sér ekki aðeins í minnkandi framlagi til Atvinnuleysistryggingasjóðs og auknum tekjum ríkisins af sköttum heldur stuðlar hún að betri heilsu borgaranna, bæði andlegri og líkamlegri, og dregur þar með úr aðsókn að heilbrigðisþjónustunni.
    Ríkisstjórnin ætti að vera sér meðvitaðri um það takmark að stefna að heilbrigði sem flestra árið 2000 eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett fram sem markmið. Hætta þeirri aðferð að höggva á báðar hendur og tilviljun ráði því hver fyrir verður. Með slíkri aðferð næst ekki árangur í að nýta fjármuni ríkisins skynsamlega og aðgerðirnar skila engu í bættri heilsu sem er það eina sem getur dregið úr kostnaði landsmanna við heilbrigðisþjónustuna þegar á heildina er litið og til lengri tíma.