Heilbrigðismál

115. fundur
Miðvikudaginn 24. febrúar 1993, kl. 15:54:09 (5400)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Sú þróun sem hefur átt sér stað í heilbrigðisþjónustu nú á allra síðustu árum hefur verið afar ánægjuleg. Aðgerðir og lyfjagjafir halda nú niðri eða lækna sjúkdóma sem áður voru óviðráðanlegir og það má heldur ekki gleyma að nefna að við erum svo lánsöm að búa við einhverja bestu heilbrigðisþjónustu í heimi. En það er ekki einungis tæknilega eða læknisfræðilega hliðin sem hefur breyst. Það hafa orðið miklar breytingar á formi þjónustunnar, þ.e. að þjónustan sjálf við þessar framfarir hefur krafist breytts eða annars starfsumhverfis sem í flestum tilvikum hefur einnig verið jákvætt hvað snertir sjúklinga. Sjúklingar liggja nú yfirleitt skemur á sjúkrahúsum eins og fram hefur komið hér í dag og eru meðhöndlaðir utan þeirra. Aðgerðir sem áður þótti nauðsynlegt að gera innan sjúkrahúsanna eru nú gerðar utan þeirra og sjúkdómar sem áður kröfðust aðgerða eru meðhöndlaðir með lyfjum þannig að sjúklingurinn missir vart úr vinnudag.
    En breytingar hafa einnig orðið á upplýsingastreymi til sjúklinga. Nú veit fólk mun meira en áður um sjúkdómseinkenni, hvernig bregðast skal við þeim og ekki síður hvaða nýjustu ráð eru tiltæk. Því gerir fólk mun meiri kröfur til skjótrar og góðrar lækningar og meðhöndlunar og til þess sé notuð nýjasta tækni. Þessar breytingar eru eins og ég sagði áðan ánægjulegar því að þær lengja lífið og þær létta lífið. En slíkum breytingum fylgir einnig breyting á kostnaði við heilbrigðisþjónustu og sá kostnaður sem við mælum er útlagður kostnaður vegna þjónustunnar og sá kostnaður hefur aukist gífurlega síðustu árin jafnvel þótt ýmis ný form á heilbrigðisþjónustu, svo sem meðhöndlun utan spítala, hafi dregið úr þeirri kostnaðaraukningu sem orðið hefði ef öll fyrri þjónusta hefði haldið áfram innan sjúkrahúsanna.
    Það er ljóst að sú þjónusta sem nú er veitt utan sjúkrahúsa er mun hagkvæmari og ætti að velja þá leið hvenær sem slíkt er tæknilega mögulegt. Þess vegna verður að gæta þess að greiðslukerfi fyrir utan spítalaþjónustu hafi ekki óhagstæð áhrif á þessa jákvæðu þróun.
    En einu gleymum við oft í umræðunni og það er sá hagnaður sem skapast í þjóðfélaginu við það að geta nú læknað og meðhöndlað fólk á besta aldri og haldið því úti í atvinnulífinu. Við minnumst oft á tilfinningalegu hliðina sem tengist björgun mannslífa. Það er vinsælt að tala um þá hlið. En við skirrumst við að ræða þá fjárfestingu sem glatast er fólk á besta aldri leggur ekki lengur hönd á plóg í þjóðarframleiðslunni. Þessi þáttur er sjaldnast mældur og þrátt fyrir að ég bendi nú oft á þennan gleymda en jákvæða þátt, þá verðum við þó að viðurkenna að það er staðreynd að öll þau miklu úrræði sem við höfum nú til lækninga eru að verða okkur ofviða fjárhagslega. Við sjáum fram á að ef við ekki stöldrum við og leitum hagkvæmustu leiða til að viðhalda heilbrigði, þá muni kostnaðurinn aukast og jafnvel út í hið óendanlega. Þetta er sú hlið sem snúið hefur að ríkisvaldinu og er nú alls staðar reynt að snúa kostnaðarþróuninni við með öllum tiltækum aðhaldsleiðum, þó án þess að slíkt komi niður á heilbrigðisþjónustunni sjálfri eða mismuni fólki í þeim efnum. Ríkisvaldið hefur veitt aðhald, m.a. með því að festa það fjármagn sem fer til heilbrigðisþjónustu og beita þannig flötum niðurskurði til heilbrigðisstofnana. Þessi leið hefur verið farin nú í rúman áratug hér á landi og með misjöfnum árangri. Tel ég að ýmislegt hafi staðið árangri fyrir þrifum.
    Lítið hefur gerst í innra skipulagi stofnananna, m.a. hvað snertir hvatningu og umbun vegna jákvæðs árangurs. Þá má einnig nefna staðnað ráðningarkerfi og launakerfi opinberra starfsmanna sem ekki gefur tilefni til sveigjanleika í takti við framþróun. Enn fremur vil ég halda því fram að fjármögnunarkerfi til sjúkrahúsa sem unnið hefur verið eftir fram til þessa hafi gengið sér til húðar. Við ákvörðun fjárframlags er nauðsynlegt að taka mun betur tillit til þeirrar ,,framleiðslu`` sem þar fer fram, ef ég má leyfa mér að nota það orð um starfsemi sjúkrahúsa.
    Aukin eftirspurn eftir sérfræðilæknisþjónustu utan sjúkrahúsa er ekki eingöngu skrifuð á tækniframfarir og möguleika til að lækna utan sjúkrahúsa. Þegar sjúkrahúsin hafa þurft að spara hefur að sjálfsögðu verið lögð áhersla á að leggja inn eingöngu þá sem nauðsynlega þurfa á sjúkrahúsvist að halda. Hinum hefur verið sinnt utan sjúkrahúsa. Þetta er ein af meginskýringunum á aukinni sérfræðiþjónustu utan sjúkrahúsa en eins og ég hef áður nefnt úr þessum ræðustól, þá nemur svokölluð klínísk sérfræðiþjónusta aðeins 3% af heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar. Sjúkrahúsaþjónustan tekur hins vegar til sín yfir 50% af kostnaðinum.
    Í umræðu um sérfræðiþjónustu utan sjúkrahúsa hefur verið mikið talað um opinn krana, að aðgangur að þessari þjónustu sé algerlega óheftur og það að öllum sérfræðingum sé í raun heimilt að skrifa reikning á Tryggingastofnun. Það sem er hvað sérkennilegast í þessari umræðu er að hún ber keim af eins konar áburði á þessa aðila um ábyrgðarleysi og jafnvel hirðuleysi um þann kostnað sem hlýst af heimsókn til þeirra. Ég vil alls ekki taka undir slík ummæli. Auðvitað finnast svartir sauðir í öllum fjárhúsum. En alhæfing í þessu efni er vægast sagt óraunhæf. Hins vegar vil ég í þessari umræðu leggja áherslu á valfrelsi einstaklingsins í heilbrigðisþjónustu. Í dag skoðast valfrelsi sjálfsögð mannréttindi og er slíkt stefna ýmissa aðila. M.a. vil ég vísa til EB og OECD sem hafa það á stefnuskrá sinni að sú regla sé í heiðri höfð og jafnvel í auknum mæli að lögð sé áhersla á valfrelsið og vil ég vísa sömuleiðis til 85. gr. Rómarsáttmálans. Því vil ég vara við mismunun eða ofstýringu sjúklingaflæðis í heilbrigðisþjónustu.
    Eins og ég nefndi hér að framan hafa stórstígar framfarir í lyfjafræði gefið bæði möguleika á lækningu og meðhöndlun utan sjúkrahúsa og ekki síst hafa ný lyf linað óþægindi fjölmargra sem fram til þessa tíma máttu þola ævilöng óþægindi vegna krankleika. Í almannatryggingakerfi okkar hafa þessar framfarir þýtt gífurlega aukinn kostnað en eins og áður er sagt eru engar mælingar á þeim hagnaði sem fengist hefur vegna þessara framfara.
    Mikil gagnrýni hefur komið fram undanfarið á stjórnun lyfjakaupa og lyfsölumála. Vissulega hefur talsvert af þessari gagnrýni átt rétt á sér, enda sýnir árangur undanfarandi ára að á þessum málum mátti taka.
    Það er tiltölulega stutt síðan reynt var að taka markvisst á kostnaðarreikningum í heilbrigðiskerfinu, bæði hér á landi og erlendis. Þær leiðir sem helst hafa verið notaðar á flestum stöðum eru flatur niðurskurður af hálfu ríkis og breyttir samningar við þá aðila sem starfa sjálfstætt og senda reikninga til ríkisins. Minna hefur verið gert af því að auka kostnaðarmeðvitund innan heilbrigðisstétta, hvað þá heldur sjúklinga.
    Allt fram til þessa hefur mér fundist að í aðhaldsaðgerðum hafi verið tekið mið af því mynstri í heilbrigðisþjónustu sem tíðkaðist hér áður fyrr en minna horft til framtíðarþróunar í tækni og upplýsingum til almennings, þ.e. hver framtíðareftirspurnin verður og hvernig hún verður. Það er ljóst að fólk mun halda áfram að óska eftir bestu og fullkomnustu heilbrigðisþjónustu. Læknar munu ekki í sama mæli og áður ákvarða um magn og gæði þjónustunnar. Sjúklingarnir munu hafa ákveðnari skoðanir hvað snertir eigin óskir. Þess vegna hefur verið nauðsynlegt að auka þekkingu almennings á hvernig kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu verður til. Slíkt hefur einnig verið gert með því að auka greiðsluþátttöku sjúklinga vegna þjónustunnar. Þessi breyting hefur haft þau áhrif að umræða um kostnaðinn hefur aukist gríðarlega meðal almennings og læknar hafa í ríkari mæli en áður hugað að kostnað áður en meðferðarúrræði eru valin. Þessi háttur hefur sérstaklega verið gagnrýndur að undanförnu, einkum hafa heyrst háværar raddir frá verkalýðsfélögum. Það er mikilvægt að allir landsmenn eigi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustunni en ekkert síður er vert að undirstrika að þeim sem oft þurfa að leita heilbrigðisþjónustu sé ekki íþyngt um of með þjónustugjöldum, þ.e. að þök þjónustugjalda séu raunhæf í allri heilbrigðisþjónustu hvort heldur er um að ræða þjónustu á lækningastofu eða ef um lyfjakaup er að ræða.
    Ég hef áður lýst því yfir að ég styðji hlutfallsgreiðslufyrirkomulagið og ég tel brýnt að það fyrirkomulag sé sanngjarnt þannig að það komi ekki í veg fyrir að fólk geti sótt sér nauðsynlega þjónustu. Breytingar innan heilla málaflokka hvort heldur eru stjórnunarlegar eða fjárhagslegar eru erfiðar. Þegar upp er staðið má telja eðlilegast að hinn almenni kjósandi ætti að hafa síðasta orðið um slíkar breytingar. Þess vegna mun ég styðja og hvetja til umræðu og breytinga á svo viðkvæmum málaflokki sem heilbrigðisþjónustan er. Heilbrigðismálin hafa þá sérstöðu að það er erfitt að kippa að sér hendinni eða loka pyngjunni til þessa málaflokks þó að landsframleiðslan minnki. Menn hætta ekkert að veikjast þótt þorskurinn sýni sig ekki. Þess vegna ber alvarlega að íhuga aðskilnað eða sérgreiningu framlaga til þessa málaflokks frá öðrum málaflokkum. Þannig mætti betur aðgreina og velja á milli t.d. framlaga til jarðgangagerðar eða aukningar á framlagi eða öllu heldur iðgjaldi til heilbrigðistrygginga. Þannig endurspeglast betur vilji þjóðarinnar til útgjalda, samdráttar eða aukningar til heilbrigðisþjónustu.