Heilbrigðismál

115. fundur
Miðvikudaginn 24. febrúar 1993, kl. 16:33:47 (5403)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þátttökuna í þessari umræðu utan dagskrár og öðrum þingmönnum sem hér hafa talað. Erindi hæstv. forsrh. hingað í þennan stól hér áðan var býsna merkilegt. Hann kom hér fyrst og fremst til þess að bera blak af hæstv. heilbrrh. Mér fannst hins vegar vera dálítið falskur tónn í þeirri ræðu, ekki síst þegar haft er í huga að á fundi sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir fáum dögum síðan sagði hæstv. forsrh. að það þyrfti ekkert að fara í launkofa með það að ýmsar af þeim aðgerðum sem þessi ríkisstjórn hefði gripið til varðandi heilbrigðismálin væru handahófskenndar og vinnubrögðin lítið grunduð. Auðvitað er þetta sá dómur sem hæstv. forsrh. hefur gefið núv.

hæstv. heilbrrh. og þá um leið sinni eigin ríkisstjórn.
    Hæstv. heilbrrh. spurði að því í upphafi sinnar ræðu hvort það væri mat stjórnarandstöðunnar að ekki hefði þurft að grípa til aðgerða. Síður en svo. Það var nauðsynlegt að grípa til aðgerða á mörgum sviðum. Það er nauðsynlegt að spara og nauðsynlegt að hagræða en það á ekki að gera með þeim hætti og eftir þeim leiðum sem hæstv. ráðherra hefur farið. Það á að taka á lyfsölunum, hæstv. ráðherra. Það á að spara í sérfræðilæknishjálpinni. Það á að taka á kostnaðinum í tannlækningunum og tannréttingakostnaðinum. Það á ekki að skattleggja sjúklingana og auka þannig tekjurnar. Það á að auka verkaskiptingu sjúkrahúsanna til þess að ná þar raunverulegum árangri. Leiðin sem hæstv. ráðherra hefur valið til þess að spara í heilbrigðiskerfinu er röng.
    Hæstv. ráðherra státar mjög af því í þessari umræðu að hann hafi unnið mál sem lyfsalar fóru farið í við hann og slær sig til riddara með því að með því muni sparast einhverjir tugir eða hundruð milljóna króna. Það er alveg hárrétt að eitthvað sparast. Málið snerist ekki um það hvort hæstv. ráðherra kæmi sínum tillögum fram heldur hvort sá maður sem hann skipaði í lyfjaverðlagsnefnd gæti setið þar vegna þess að hann væri of nákominn ráðherranum til þess að flytja tillögur þar.
    Það er hart þegar hæstv. ráðherra ruglar saman grundvallaratriðum eins og þeim hvað sé sparnaður og hvað sé tekjuauki. Ráðherra sem ekki gerir greinarmun á því hvað er sparnaður og hvað er tekjuauki í kerfinu en fer með svo mikilvægan og dýran málaflokk eins og heilbrigðismálin eru er auðvitað á stórhættulegri braut. Hann segir: Það hefur sparast alveg stórkostlega með því að auka tekjurnar alltaf inn í sjúkratryggingakerfið með skattlagningu á sjúklinga. Það hefur ekkert sparast. Það hefur ekkert sparast, hæstv. ráðherra. Tekjurnar hafa aukist og það er niðurstaðan.
    Ég skal þó viðurkenna að það er um tímabundinn sparnað, að mér sýnist, á sjúkrahúsunum í Reykjavík að ræða. Sá tímabundni sparnaður er knúinn fram með hótunum af hæstv. ráðherra um að ef ekki verði gengið að því sem hann vill, þá verði menn fyrir enn meiri niðurskurði. Þar er hins vegar um tímabundinn sparnað að ræða vegna þess að þegar búið er, eins og hæstv. ráðherra er að gera, að byggja upp tvær jafnstórar stofnanir í höfuðborginni, þ.e. sameinaðan Borgarspítala og Landakotsspítala og svo hins vegar Ríkisspítalana, mun hefjast mjög mikil fagleg samkeppni, samkeppni um takmarkaða fjármuni, samkeppni um tækjakaup og samkeppni um sérfræðinga á stofnanirnar sem mun auka stórkostlega útgjöld þessara stofnana þegar til lengri tíma er litið. Þarna er því hæstv. heilbrrh. einnig á rangri leið. Þó hægt sé að sýna sparnað á þessu ári er það enginn langtímasparnaður.
    Upplýsingarnar um lyfjakostnaðinn sem komu fram hjá hæstv. ráðherra og ég vitnaði til og hann endurtók að væru réttar, að sparnaðurinn væri 1.300 millj., 1.100 millj. í sjúkratryggingunum og 200 millj. hefðu færst yfir á sjúklingana. Ef hæstv. ráðherra heldur þessu fram, þá verður hann líka að taka það til baka sem hann setur fram í grein sem birtist í Morgunblaðinu 29. jan. sl. vegna þess að hvernig sem hæstv. ráðherra fer með þær tölur sem hér eru á blaði og þó svo hann noti þá föstu aukningu, sem hann vill gera, sem vöxt í lyfjaútgjöldunum á milli ára, þá er útilokað að finna út úr þessum tölum að sparnaðurinn hafi orðið 1.300 millj. kr. Annaðhvort er rangt, það sem hæstv. ráðherra heldur fram eða það sem hann sendi frá sér í þessari blaðagrein þann 29. jan. sl.
    Ég var ekki í upphafi að gera lítið úr því samráði sem nauðsynlegt er að hafa við heilbrigðisstéttirnar til þess að ná árangri. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur haldið marga fundi, sent mörg bréf og gert margar kannanir. En eitt af því mikilvægasta, hæstv. ráðherra, er að staðið verði við það sem lofað er gagnvart þeim stofnunum sem margar hverjar hafa að vissu leyti náð tímabundum sparnaði með því að fá starfsfólkið með í leikinn með því að þrengja verulega að og leggja meira á sig. Þá er auðvitað mjög mikilvægt að staðið verði við að árangurinn sem menn hafa verið að ná geti flust til milli ára.
    Í heilsugæslunni í Reykjavík hefur orðið sparnaður á bilinu 8--10 millj. kr. Stjórnendur heilsugæslunnar hér vissu ekki annað en sá sparnaður ætti að færast til milli ára. Staðreyndin er hins vegar sú að nú segir fjmrn.: Þetta var bara allt saman plat. Það á ekkert að standa við þetta. Þetta verður allt saman tekið af ykkur og sett í einhvern sameiginlegan sjóð sem á að dreifa hingað og þangað um landið. Halda menn að það sé hægt að ná árangri með starfsfólki heilsugæslunnar endalaust ef ekki verður staðið við þessa hluti? Eftir þessu mun verða gengið við hæstv. heilbrrh. og ég trúi ekki öðru fyrr en tekið verður á að hann standi við það því ég veit að þetta er ekki vilji í heilbrrn. Þetta er vilji þeirra í fjmrn.
    Það sem ég átti við þegar ég sagði að fullkomið vantraust ríkti milli heilbrrh. og starfsfólksins í heilbrigðisþjónustunni, þá var ég að vitna í viðtal við Önnu Maríu Þórðardóttur, hjúkrunarfræðing á Akureyri, sem birtist í Dagblaðinu 15. jan. þar sem hjúkrunarfræðingurinn segir: ,,Við treystum ekki Sighvati fyrir þessum upplýsingum``. Þetta átti ég við í upphafi minnar ræðu þegar ég segi: Það ríkir fullkomið vantraust á milli heilbrigðisstéttanna og heilbrrh.