Heilbrigðismál

115. fundur
Miðvikudaginn 24. febrúar 1993, kl. 16:41:19 (5404)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil svara hér nokkrum efnisatriðum sem fram hafa komið í umræðunni. Aðeins þó, meðan það er mér í minni, vil ég skýra frá því að í tilvitnaðri grein, sem hv. síðasti ræðumaður vitnaði í, var því lýst yfir að svo mikið væri vantraustið á heilbrrh. að starfsfólk sjúkrahúsanna á Húsavík og að mig minnir Akureyri hafi tekið sig saman um að svara ekki fyrirspurnum ráðherrans í þeim bréfum sem ráðherrann hafði sent til fólksins. Mér er mikil ánægja að upplýsa það að á fáum sjúkrahúsum var jafngóð þátttaka hlutfallslega í svörum til heilbrrn. eins og á þessum tveimur sjúkrahúsum. Það var því ekki meira á bak við þessa grein en kannski framsóknarmennska. En það er ekki hægt að segja það miðað við þau svör og þær undirtektir sem við höfðum fengið í heilbrrn. að starfsfólk sjúkrastofnana hafi ekki virt okkur svars nema síður væri. Það hefur lagt sig fram og það hefur tekið virkan þátt í því að leggja okkur góð ráð í veganestið eftir þá aðgerð sem við beittum okkur fyrir til að lækka kostnað á sjúkrastofnunum í samráði við stjórnendur og starfsfólk þessara stofnana.
    Hér hafa orðið talsverðar umræður um ýmis atriði og vildi ég gjarnan víkja að nokkrum þeirra. Í fyrsta lagi hafa menn rætt talsvert mikið um þær breytingar sem gerðar hafa verið á greiðslumeðferð svokallaðra blóðfitulyfja eða lyfja sem eru til þess ætluð að lækka blóðfitu hjá sjúklingum.
    Í ársbyrjun 1990 héldu sérfræðingar í hjartalækningum fund að tilhlutan landlæknis. Niðurstaða þess fundar var sú að ástæða væri til þess að hafa nokkrar áhyggjur af því hvað mikil aukning væri á neyslu mjög dýrra lyfja til lækkunar á blóðfitu á Íslandi. Sérfræðingarnir gerðu þá tillögu að þessi mál yrðu tekin til endurskoðunar og settar þær almennu reglur að ekki ætti að nota þessi dýru lyf nema um væri að ræða sjúklinga sem þyrftu þeirra með og gætu ekki náð árangri til lækkunar á blóðfitu með öðrum aðferðum. Þessum tillögum var fylgt í þeim breytingum sem nú eru gerðar í fullu samráði við þá sérfræðinga sem hér eiga hlut að máli. Reglan er einfaldlega sú að þeir sjúklingar sem að mati hjartalækna þurfi ekki á lyfjum til lækkunar blóðfitu að halda heldur geta tekist á við það vandamál með öðrum hætti fái ekki blóðfitulyfin niðurgreidd úr ríkissjóði. Þeir sjúklingar hins vegar sem eru með mjög háa blóðfitu þar sem há blóðfita er erfðaeigind eða þar sem breytt matarræði ber ekki árangur fá eftir sem áður blóðfitulyf sem hið opinbera greiðir að langmestu leyti fyrir þá. Þarna er því byggt á ráðleggingum sérfræðinganna sjálfra með nákvæmlega sama hætti eins og hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, var að ræða um áðan að ástæða væri til að gera, þ.e. að draga úr lyfjanotkun þar sem hún væri ekki æskileg að áliti lækna.
    Þetta er nákvæmlega sama aðferð og Íslendingar hafa t.d. fengið mjög mikið lof fyrir á alþjóðavettvangi hvað varðar meðferð sykursýki. Hér eru lyf ekki gefin við of háum blóðsykri eins og mjög víða er gert í öðrum löndum nema í ljós komi að breytt matarræði og bættar lífsvenjur hafi ekki þann árangur að blóðsykur lækki. Þetta er talið okkur Íslendingum til mikillar fyrirmyndar. Nákvæmlega sama var uppi á teningnum hvað varðar greiðslumeðferð blóðfitulyfja. Þar erum við að vinna nákvæmlega sambærilegt verk í fullu samráði við hjartasérfræðinga.
    Þó að það eigi ekki við að ræða einstök dæmi var einmitt þetta mál sem olli þessum mikla kostnaði við lyf sem hv. 4. þm. Suðurl., Margrét Frímannsdóttir ræddi um hér áðan. Þeir lyfjaflokkar sem hún nefndi, hjartalyf í flokknum C 07 A, eru greidd samkvæmt B-flokki þar sem ellilífeyrisþegi greiðir aðeins 150 kr. fyrir ávísunina og 5% af því verði sem umfram er, en þó aldrei meira en 400 kr. Mér kom því mjög á óvart sú háa fjárhæð sem nefnd var í þessu sambandi. En hún stafar einfaldlega af því að eitt af þeim lyfjum sem hér er um að ræða er blóðfitulyf sem er mjög dýrt og sjúklingur fær ekki greiðsluþátttöku ríkisins fyrir nema þeir hjartasérfræðingar sem um hann annast telji að hann geti ekki komist af nema hafa þetta lyf. Með öðrum orðum eigi hann frekar að reyna að ná niður blóðfitu með breyttu matarræði og eigi ekki að taka lyf nema annað dugi ekki.
    Svona er skýringin á því dæmi. Það er mjög óþægilegt að tiltaka einstök dæmi hér uppi í ræðustól en því miður er það nú einfaldlega svo að þegar flestöll dæmi sem við höfum fengið upp á borðið, bæði nú og fyrr, þar sem menn tiltaka að einhver tiltekinn sjúkdómur valdi mjög háum lyfjakostnaði eru tekin til skoðunar kemur í ljós að allt aðrar ástæður liggja þar að baki.
    Þá var spurt um krabbameinslyf og greiðslumeðferð þeirra vegna. Engar breytingar hafa á því verið gerðar. Krabbameinssjúklingur sem er í krabbameinsmeðferð fær sín krabbameinslyf ókeypis nú eins og hann hefur alltaf gert og engar breytingar voru á því gerðar. Hins vegar geta krabbameinssjúklingar að sjálfsögðu veikst af öðrum sjúkdómum en sínum krabbameinssjúkdómi og þá er það almenna reglan að um greiðslur þeirra fyrir slík lyf er farið eins og um greiðslur annarra sjúklinga. Þó með þeirri undantekningu að í þeirri reglugerð sem öðlaðist gildi þann 25. jan. sl. er í fyrsta skipti gert ráð fyrir því að ef um sjúkling er að ræða sem þarf á mörgum tegundum lyfja að halda á sama tíma sé heimilt að undanþiggja hann greiðslu fyrir þau lyf, annaðhvort hluta þeirra eða þau öll. Þar er því verið að opna möguleika til að létta greiðslum af sjúklingum sem ekki voru í reglugerðum áður.
    Nokkrir hafa vakið athygli á því að það sé ekki samræmi á milli þeirra upplýsinga sem eru gefnar í bæklingi heilbr.- og trmrn. um lyfjakostnað á árinu 1992, þ.e. raunverulegan kostnað upp á 2.620 millj., og á þeim tölum sem Ríkisendurskoðun gefur upp upp á rúmlega 2.700 millj. og segja: Er ekki ástæðan sú að þið farið rangt með? Nei, ástæðan er ekki sú. Ástæðan er einfaldlega sú að sú ákvörðun var tekin að útgjöld vegna ákveðins hóps lyfja, sem áður fyrr voru færð með útgjöldum vegna hjálpartækja, hafa verið flutt inn á almennan lyfjakostnað Tryggingastofnunar ríkisins. ( Gripið fram í: Tæpar 30 millj.) Nei, það var á annað hundrað millj. kr. Tillit til þess hefur verið tekið í þeim upplýsingum sem eru gefnar í bæklingi heilbr.- og trmrn. Þar er því verið að bera saman sambærilegar tölur á milli ára. Í upplýsingum Ríkisendurskoðunar er þetta hins vegar ekki gert. Hvorugar upplýsingarnar eru þess vegna rangar. Þær eru báðar réttar en innihalda þennan mismun.
    Þá var einnig spurt um það hvernig á því stendur að þau súlurit sem við höfum látið frá okkur fara

séu misvísandi. Ég hélt að menn gætu gengið úr skugga um það einfaldlega með því að lesa þann texta sem súluritunum fylgir. Annars vegar er um að ræða samanburð á lyfjakostnaði Tryggingastofnunar ríkisins á föstu gengi. Hins vegar er um að ræða samanburð á lyfjasölu á útsöluverði úr apóteki samkvæmt verðskrá 1. okt. 1992. Þ.e. hver er heildarsparnaður þjóðfélagsins af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til miðað við lyfjasölu á útsöluverði frá apótekum annars vegar og hins vegar hver hefur orðið sparnaðurinn á lyfjakostnaði Tryggingastofnunar ríkisins. Þegar menn bera saman epli og appelsínur, eins og menn eru að gera í þessu sambandi, þá er náttúrlega mjög eðlilegt að niðurstaðan sé ólík því að menn eru ekki að bera saman sömu hlutina. Það kemur fram einfaldlega í textanum með þeim súluritum sem gefin eru á þessum tveimur stöðum.
    Hv. 6. þm. Vestf. spurðist fyrir um nokkur atriði. M.a. rakti hún sparnað á sjúkrahúsum og dró út af fyrir sig ekki í efa að sparnaður hefði orðið en vildi finna sínar skýringar á því sem eru aðrar en þær sem heilbr.- og trn. gefur. Í fyrsta lagi spurði hún: Getur þetta ekki verið vegna þess að sjúklingar hafi borgað meira? Svarið við því er nei. Sjúklingar borguðu ekkert meira á sjúkrahúsum á árinu 1992 en þeir gerðu á árinu 1991. Það voru engar breytingar gerðar á þeirri meðferð.
    Í öðru lagi spurði hv. þm. hvort skýringin gæti verið sú að það væri verið að draga úr þjónustunni. Ég svaraði því hér áðan að það væri þvert á móti. Miklu fleiri sjúklingar hefðu verið teknir til meðferðar og miklu fleiri aðgerðir hefðu verið gerðar. Niðurstaðan er því sú að hér er um að ræða sparnað í rekstri á sama tíma og framleiðsla sjúkrahúsanna, ef má nota jafnófínt orð um þau verk sem þar eru unnin, hefur verið að aukast.
    Í þriðja lagi spurði hún: Getur þetta ekki verið vegna þess að biðlistarnir hafi verið að lengjast? Svarið við því er líka nei vegna þess að eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið hafa biðlistarnir ekki verið að lengjast heldur að styttast. Það eru t.d. engir biðlistar í árslok á Landakotsspítala og biðlistar eftir hjartaaðgerðum á Landspítalanum hafa styst úr 70 í árslok 1991 í um 50, 46 ef ég man það rétt, í árslok 1992. Allar þessar heimatilbúnu skýringar hv. þm. sem eru bornar fram undir spurningunni ,,getur ekki verið . . .  `` eru einfaldlega út í hött. Þær skýringar sem heilbrrn. gefur og væntanlega mun Ríkisendurskoðun gefa þær skýringar síðar þegar hún hefur lokið sinni umfjöllun. Við skulum bíða eftir þeim en ekki vera að búa til einhverjar getgátur.
    Þá var rætt hér um að með svokallaðri reglugerð um ferliverk hefði núv. heilbrrh. fundið upp á því að sjúkrahúslæknar stunduðu aðgerðir á sjúkrahúsum og sendu reikninga fyrir til Tryggingastofnunar ríkisins. Þetta er ekki kerfi sem ég hef fundið upp. Þetta kerfi er búið að vera við lýði í sjúkrahúsunum í mörg, mörg ár. Það sem við höfum hins vegar beitt okkur fyrir er að við höfum óskað eftir því að sjúkrahúsin gerðu þá kröfu til sérfræðinganna að þeir greiddu sjúkrahúsunum leigu fyrir afnot sín af þeirri aðstöðu sem þeir hafa þar, en margir sérfræðingar höfðu haft þann háttinn á að þeir tóku til sín allar þær greiðslur frá sjúkratryggingum sem fyrir þetta eru greiddar og hafa ekki greitt sjúkrahúsinu eina krónu í leigu fyrir þá aðstöðu sem þar er veitt. Við það var ekki gerð athugasemd af fyrrv. heilbrigðisyfirvöldum. ( Gripið fram í: Hvar var það?) Það var t.d. í Vestmannaeyjum svo eitt dæmi sé nefnt. Ég hélt að hv. þm., sem var nú búinn að vera ansi lengi í heilbrrn., hefði grafið það upp.
    Þá var sagt með réttu af hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu að fólk væri ruglað í ríminu. Það er alveg rétt. Stjórnarandstaðan hefur ekki hjálpað til að greiða úr því. Ég vil eingöngu minna á það ástand sem var í landinu um mitt ár 1991 eftir þá breytingu sem þá var gerð á lyfjakostnaði. Þá var andróðurinn sá að hér væri verið að gera breytingar sem mundu leiða til þess að gamalt fólk gæti ekki lengur keypt lyf, barnafólk yrði að neita sér um læknishjálp o.s.frv. Fólk var hrætt svo með þessum ,,upplýsingum``, sem m.a. komu frá hv. stjórnarandstöðu, að ég veit mörg dæmi þess að gamalmennin sem ætluðu sér í apótek tóku sparisjóðsbókina sína með vegna þess að það var búið að hræða þetta fólk upp úr skónum. Ekki hjálpuðu upplýsingar hv. stjórnarandstöðunnar til þess að greiða úr flækjunum vegna þess að sannleikurinn er einfaldlega sá að þó vissulega megi gagnrýna margar af þeim aðgerðum sem verið er að gera í heilbrigðismálum og verið er að gera af ríkisstjórninni til þess að börn okkar og barnabörn geti átt í jafngóðu þjóðfélagi að búa og við, til þess að við séum ekki að senda allan reikninginn af okkar tilveru til þeirra.
    Vissulega má gagnrýna ýmislegt af þeim aðgerðum sem við erum að grípa til. En menn hafa ekki gagnrýnt þær út frá réttum upplýsingum. Margir hafa ekki einu sinni haft fyrir því að sækja þær upplýsingar sem þeir hafa þó sjálfir beðið um. Ég er ekkert andvígur því og hef ekkert við það að athuga þótt aðgerðir mínar séu gagnrýndar af stjórnarandstöðunni á grundvelli réttmætra upplýsinga og sanngirni. En ég hef vissulega ástæðu til að andmæla því þegar gagnrýnin er fyrst og fremst því markinu brennd að það sé verið að reyna að hræða fólk, það sé verið að reyna að æsa fólk upp, það sé verið að reyna að rugla fólk í ríminu, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði hér áðan svo rétt.
    Ég var ekki þegar ég tók dæmið um kostnað við heilbrigðisþjónustu að bera saman þau verk að gera við sjónvarpstæki eða gera við mannslíkama. Ég var að reyna að vekja athygli fólks á því að læknisþjónusta á Íslandi er ekki dýr. Ég var að reyna að vekja athygli fólks á því að sú þjónusta sem við fáum í íslenska heilbrigðiskerfinu er ekki dýr. Þar kostar 1.000 kr. að fá lækni með margra ára sérfræðimenntun heim á heimili til sín til þess að gefa sér ráðleggingar. Hvað fá menn mikla þjónustu í okkar þjóðfélagi fyrir 1.000 kr.? Ég var að benda mönnum á að bera það saman en ekki að bera saman mannslíkamann og sjónvarpstækið.

    Virðulegi forseti. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Hagstofunni eftir allar þær hækkanir sem orðið hafa eru 0,4% af útgjöldum vísitölufjölskyldunnar vegna lyfjakostnaðar og 0,6% af útgjöldum vegna læknishjálpar. Til hefðbundinnar heilsuþjónustu, lyfja og læknismeðferðar, fer 1% af samanlögðum útgjöldum vísitölufjölskyldunnar. Hvað segir það? Það segir okkur það að þrátt fyrir allt er beinn kostnaður vegna heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu samanborið við flestallar aðrar þjóðir mjög lítill. Hins vegar hafa þessir útreikningar að sjálfsögðu þann galla, sem allir meðaltalsútreikningar hafa, sem sé þann að sumir þurfa að borga meira og aðrir þurfa að borga minna.
    Við höfum reynt að hlífa þeim sem helst þyrfti að hlífa sem er eldra fólk, börn og þeir sem eiga við langvinna sjúkdóma að stríða. Hvernig höfum við gert það? Við höfum gert það með því m.a. að það er meginreglan að lífeyrisþegi borgar aldrei meira en einn þriðjung af því sem aðrir þurfa að greiða. Við höfum reynt að gera þetta gagnvart þeim sem þurfa á mikilli hjálp að halda. T.d. fær lífeyrisþegi sem er búinn að borga á almanaksárinu samtals 3 þús. kr. í læknishjálp hjá heilsugæslulækni og sérfræðingi afsláttarkort sem þýðir að eftirleiðis fær hann allar heimsóknir á heilsugæslustöð ókeypis og meðalkostnaður hans við að leita sérfræðilæknishjálpar er 200 kr. á heimsóknina.
    Vissulega geri ég mér grein fyrir því að 200 kr. eru peningar. Það er betra að eiga 200 krónurnar en að vanta þær. En ég trúi því ekki að menn geti fullyrt með neinni sanngirni að það að borga 200 kr. fyrir sérfræðilæknishjálp sé almennum Íslendingi ofviða. Ef svo er og ég ætla ekki að draga í efa að það getur verið erfitt fyrir margan Íslendinginn að greiða slíka fjárhæð, en hans vandi er þá sá að launin hans eru svo lág, en ekki það að heilbrigðiskostnaðurinn sé svo mikill.
    Ég vil aðeins benda hv. þm. á að það eru aðilar sem semja um kaup og kjör í okkar þjóðfélagi. Þeim hefur í stórum dráttum gengið mjög vel að semja um laun fyrir Íslendinga. Margir Íslendingar hafa það bara nokkuð gott fyrir tilverknað þeirra sem semja um kaup og kjör í þessu þjóðfélagi. En ef það eru aðilar sem eiga í erfiðleikum með að borga nokkur hundruð kr. fyrir heilbrigðisþjónustu, þá er ástæðan ekki sú að heilbrigðisþjónustan sé of dýr heldur að ekki hefur tekist að semja fyrir þetta fólk um laun sem það getur lifað af. Það er kannski ástæða fyrir hv. þm. og aðra sem mál mitt heyra að velta því fyrir sér.