Flutningur á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga

116. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 10:31:40 (5406)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Anna Kristín Sigurðardóttir lagði fram þessa fsp. um flutning á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga en þar sem hún er ekki lengur hér þá tók ég að mér að mæla fyrir fsp. en hún er svona, með leyfi forseta:
    ,,Hvernig hyggst ráðherra hafa eftirlit með framkvæmd grunnskólalaga ef sveitarfélögin taka alfarið við rekstri grunnskólans?``
    Frá því að fsp. var lögð fram eru liðnar margar vikur, ég hygg jafnvel mánuðir, og síðan hefur ýmislegt gerst. M.a. það að 18 manna nefnd menntmrh. hefur skilað greinargerð, almennri greinargerð um skólamál, sem er satt að segja dálítið erfitt að átta sig á, en þar stendur þó: ,,Rekstur grunnskóla færist að fullu til sveitarfélaga.``
    Síðan segir í þessu að sveitarfélögin eigi að hafa með þennan rekstrarþátt að gera en ráðuneytið muni sinna öðrum þáttum í rekstri grunnskóla, þ.e. samræmingarþáttum. Ráðuneytið mun auðvitað eftir sem áður, eftir því sem ég hef skilið þetta, ganga frá því að kennarar standist þær faglegu kröfur sem þeir þurfa að uppfylla til þess að vinna við skóla. Ef hægt er að skilja þessa bók, þá skil ég hana þannig að það sé gert ráð fyrir því að á vegum ríkisins verði Námsgagnastofnun rekin, a.m.k. einhvern tíma enn, og ráðuneytið hafi með þann rekstur að gera. Ég skil það líka svo, enda kemur það fram í áliti 18 manna nefndarinnar, að aðalnámsskrá grunnskóla verði að sjálfsögðu gefin út af ráðuneytinu, að ráðuneytið setji reglur um hámarksfjölda nemenda í bekk, að ráðuneytið setji reglur um hús- og tækjabúnað grunnskóla. Þess vegna er alveg ljóst að ráðuneytið mun í raun og veru í einu og öllu samkvæmt þessari skýrslu ákveða allan umbúnað skólastarfsins ef farið verður eftir skýrslunni. Ef það er svo þá geta menn svo sem sagt að það sé sama hver borgar kennurunum út kaup, hvort það er ríkið eða sveitarfélögin eða Landsbankinn eða Sparisjóður Hafnarfjarðar, svo maður nefni hann sérstaklega til sögunnar í þessu efni.
    Hins vegar hefur ráðherra ekki svarað því í raun og veru enn þá opinberlega hvernig hann hyggst haga faglegu eftirliti með framkvæmd grunnskólalaga ef skólinn verður alfarið á vegum sveitarfélaganna og þess vegna er þessi spurning lögð fram. En til viðbótar við öll þau atriði sem ég nefndi áðan og ráðuneytið ætlar að hafa með að gera, þá er meiningin að taka upp próf í fornum stíl í grunnskólum sýnist mér. Það á að hrúga inn samræmdum miðstýrðum prófum og mæla allt milli himins og jarðar hjá krökkunum. Auk þess á að byrja námsaðgreiningu strax eftir 7. bekk. Það á að koma upp unglingastigi. Það á að gera grunnskólann á seinni árum, í 7., 8., 9. og 10. bekk að eins konar flokkunarvél fyrir börnin upp á framtíðina. Ég sé ekki betur en þó að skólinn yrði fluttur til sveitarfélaganna, fjárhagslega, þá yrði hin faglega miðstýring skarpari en hún hefur nokkru sinni áður verið.