Námsgagnastofnun

116. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 10:43:35 (5410)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. sem ég mæli fyrir er sama marki brennd og hin fyrri, það er löngu búið að leggja hana fram, hún var lögð fram fljótlega eftir að fjárlög voru kynnt þar sem kom fram að það átti að skera Námsgagnastofnun meira niður en nokkrar aðrar ríkisstofnanir. Þess vegna er hér spurt:
  ,,1. Hvaða fagleg rök eru fyrir því að skera framlög til Námsgagnastofnunar niður umfram aðrar stofnanir á næsta ári?
    2. Hvernig rökstyður ráðherra þá fullyrðingu sína að Skólavörubúðin sé ,,bara ritfangaverslun``?`` --- En þar er vitnað til orða hæstv. ráðherra.
  ,,3. Er það ætlun ráðherra að beita sér fyrir því að lögð verði námsbókagjöld á nemendur í grunnskólum eða að afla tekna vegna námsbókaútgáfu með öðrum hætti?``
    Tilefni þessarar fsp. er niðurskurðurinn til Námsgangastofnunar og líka hugmyndirnar um flutninginn til sveitarfélaganna. Menn velta því auðvitað fyrir sér hvernig skólunum verði tryggðar námsbækur ef svo fer að skólarnir verða fluttir til sveitarfélaganna.
  ,,4. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ,,einkavæða`` útgáfu námsbóka handa grunnskólanum?``
    Um þetta mál er að öðru leyti það að segja að í fjárlögum ársins 1992 fékk Námsgagnastofnun 247,4 millj. kr. og á verðlagi í janúar 1993 þá eru það 255,9 millj. kr. Stofnunin fékk 232,4 millj. kr. Hana vantar því í fyrsta lagi 23,5 millj. kr. Síðan vantar hana peninga vegna þess að það var ákveðið að leggja virðisaukaskatt á bækur frá miðju þessu ári. Það eru aukaútgjöld fyrir Námsgagnastofnun og samtals vantar hana 36,5 millj. kr. miðað við fjárlög síðasta árs og þennan virðisaukaskatt á bækur, sem á að taka gildi frá og með miðju þessu ári, ef ríkisstjórnin fer sínu fram í þeim efnum.
    Námsgagnastofnun og stjórn hennar hefur velt því fyrir sér hvernig hún getur komið til móts við þessar kröfur ríkisstjórnarinnar um niðurskurð og það er greinilegt að það verður gert með því að skera verulega niður framleiðslu námsefnis. Það er ekki ljóst með hvaða hætti það gerist nákvæmlega en framleiðsla námsefnis verður skorin niður. Vörur Námsgagnastofnunar hafa verið óvenjulega ódýrar. Ég ætla að nefna dæmi, virðulegi forseti:
    Á sl. ári þá dreifði Námsgagnastofnun 698 þús. eintökum af bókum í skóla landsins og meðalverð á hverja bók var 279 kr. 37 aurar. Til samanburðar má geta þess að Námsgagnastofnun var með svokallaðan sérkvóta til kaupa á efni frá öðrum aðilum og dreifði þannig 26.384 eintökum frá einkaaðilum. Þær bækur kostuðu hins vegar 605 kr. 84 aura, eða voru 114% dýrari hvert eintak en þær bækur sem Námsgagnastofnun sjálf framleiddi. Af þessum tölum sést að þessi stofnun hefur starfað með hagkvæmum og skynsamlegum hætti.
    Hæstv. ráðherra komst þannig að orði að Skólavörubúðin væri bara ritfangaverslun. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessum orðum sérstaklega vegna þess að Skólavörubúðin er ekki bara ritfangaverslun. Skólavörubúðin er fyrst og fremst verslun sem vinnur við það að útvega skólum landsins náms- og kennslugögn í tengslum við þær námsbækur og það námsefni sem að öðru leyti fer út frá Námsgagnastofnun.
    Hæstv. menntmrh. tilkynnti það á afmæli kennaramenntunar á Íslandi fyrir allmörgum mánuðum að það væri ætlunin að flytja kennslumiðstöð Námsgagnastofnunar til Kennaraháskóla Íslands. Það mál hafði aldrei verið rætt við Námsgagnastofnun áður en ráðherrann tilkynnti það. Nú mun vera ætlunin að flytja þessa stofnun til Kennaraháskólans en að hún verði starfrækt í Námsgagnastofnun, þannig að hjá Námsgagnastofnun verði starfræktar tvær stofnanir, annars vegar kennslumiðstöð Kennaraháskóla Íslands og hins vegar Námsgagnastofnun. Ég hefði ekki haldið að það væri til einföldunar að haga hlutum þannig að það væru tveir húsbændur í þessu húsnæði sem Námsgagnastofnun hefur með að gera og ég hef engin fagleg rök heyrt fyrir því að það sé skynsamlegt að flytja þessa stofnun yfir.
    Stjórn og starfsmenn Námsgagnastofnunar hafa sent bréf til ráðuneytisins og beðið um svör en hafa engin svör fengið. Fyrir liggur skýrsla frá fyrrv. bæjarstjóra í Garðabæ um þessa stofnun en hann hefur haft það verkefni, launað sjálfsagt vel, að skrifa skýrslur um eitt og annað á undanförnum mánuðum en fáir hafa séð þær skýrslur og ekki starfsmenn Námsgagnastofnunar.
    Af þessum ástæðum og mörgum fleirum er þessi fsp. borin fram og ég skora á hæstv. ráðherra að svara henni með skýrum hætti.