Námsgagnastofnun

116. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 10:51:37 (5412)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann veitti mér og vil um leið mótmæla klukkunni frá hæstv. forseta því að ég fær örugglega meira en 30 sekúndur, er það ekki forseti? Er það ekki ein mínúta? ( Forseti: Ég bið hv. þm. afsökunar, forseti hafði hreinlega ekki ýtt á takkann og að sjálfsögðu hefur þingmaðurinn tvær mínútur.) Þannig að ég hef byrjað að tala í tíma fyrri ræðumanns væntanlega þannig að ég fæ hann þá líka, hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta.
    Í fyrsta lagi segir hæstv. menntmrh. að Námsgagnastofnun sé skorin niður líkt og aðrir. Það er rangt. Hún er skorin niður í rauntölum um 13% þegar tekið er tillit til þess að hún á að borga virðisaukaskatt af bókum, sinni framleiðslu, frá og með miðju þessu ári. Þetta er rangt hjá hæstv. ráðherra. Hann segir að á móti þessu komi það að flytja eigi kennslumiðstöðina yfir til Kennaraháskólans. Hvað kostar kennslumiðstöðin? Hún kostar 9 millj. og það er gert ráð fyrir því að þeir peningar flytjist til Kennaraháskólans. Námsgagnastofnun verður ekkert betur sett þó að þessi stofnun verði flutt yfir til Kennaraháskólans af því að með henni eiga að fara peningar svo að það er auðvitað augljóst mál að Námsgagnastofnun fer mikið verr út úr niðurskurði á þessu ári en aðrar stofnanir.
    Í öðru lagi varðandi Skólavörubúðina, þá finnst mér að það sé út af fyrir sig rétt að það sé ástæðulaust að ríkið sé að reka einhverja almenna ritfangaverslun, enda er Skólavörubúðin engin almenn ritfangaverslun. Það getur vel verið að það sem hæstv. ráðherra segir í þessum efnum eigi ágætlega við t.d. skólana og aðstandendur skólabarna á Reykjavíkursvæðinu, en það er alveg ljóst að Skólavörubúðin hefur gegnt þýðingarmiklu hlutverki fyrir landsbyggðina þar sem aðgangur að ritföngum og kennslugögnum af ýmsu tagi, hjálparefni af ýmsu tagi, er lakara en hér.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að lýsa því yfir að það verði engin áform um að leggja skatt á grunnskólanemendur. Ég tók hans yfirlýsingu þannig og ég vek athygli á því að fleiri ráðherrar mættu vera þessarar skoðunar, t.d. á sviði heilbrigðismála. Ég tók einnig eftir því að hæstv. ráðherra sagði í lok sinnar ræðu að hann teldi koma til greina að flytja hluta af starfsemi Námsgagnastofnunar yfir til einkaaðila. Það tel ég í raun og veru mjög alvarlega yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra og það kallar á nýja umræðu í nýjum fyrirspurnatíma.