Samkeppnislög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 11:43:58 (5418)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hefur tekist ágæt efnisleg samstaða um alla meginþætti þessa frv. og nema þann kafla þess sem tengist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta frv. myndar nútímalega heildarlöggjöf um viðskiptamálefni okkar Íslendinga og í því eru fjölmörg nýmæli til bóta. Ég leyfi mér að nefna þar sérstaklega ákvæði um auglýsingar og vernd barna og ungmenna fyrir innrætandi auglýsingum. Og ég nefni nýsamþykkt ákvæði til bráðabirgða um úttekt í íslenska viðskiptaheiminum þar sem kannað verði hvort um alvarleg einkenni hringamyndunar og valdasamþjöppunar sé að ræða í íslensku viðskiptalífi.
    Þetta hvort tveggja eru tvímælalaust þörf nýmæli og í heild má segja að þarna sé markaður nútímalegur grundvöllur fyrir okkar viðskiptalíf. Það er því mjög dapurlegt að hv. stjórnarliðar skuli ekki hafa fengist til að vinna það til að kalla til baka hinn umdeilda XI. kafla frv. sem tengist samningnum um Evrópskt efnahagssvæði til að varðveita þá samstöðu sem að öðru leyti hefur tekist í málinu.
    Þetta er sá kafli þar sem lengst er gengið í valdaframsali til erlendra stofnana og mestar efasemdir eru gagnvart að standist ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar.
    Þar sem tillaga um að fella þennan kafla út úr frv. hefur verið felld þá treystum við þingmenn Alþb. okkur ekki til að greiða frv. atkvæði í endanlegri mynd sinni þó svo við séum sammála því efnislega að öðru leyti en áhrærir ákvæði þessa eina kafla. Ég greiði ekki atkvæði, hæstv. forseti.