Samkeppnislög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 11:46:09 (5419)


     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram hefur komið ágætis samstaða tókst um alla efnisþætti málsins utan þennan kafla sem vitnað er til um Evrópska efnahagssvæðið. Ég lít svo á að þetta sé sparðatíningur hjá hinum ágætu félögum mínum í efh.- og viðskn. sem eru í stjórnarandstöðu og stjórnarandstöðuþingmönnum að geta ekki staðið að þessu frv. þrátt fyrir þennan kafla. Það liggur fyrir ef þessi kafli væri felldur út úr frv. væri það dálítið á skjön við eðlileg vinnubrögð þingsins að ætla sér að flytja hann nákvæmlega óbreyttan aftur á þessu þingi en orðalagið í kaflanum er þannig að það þarf í mesta lagi að fella út einn ákveðinn greini í kaflanum. Að öðru leyti getur hann dugað þrátt fyrir þá breytingu sem þarf að gera á EES-samningnum. Ef ekkert verður af EES-samningnum þá er ég viss um að félögum mínum þætti létt verk og löðurmannlegt að fella kaflann út úr lögunum þegar það lægi fyrir að ekkert yrði úr samningnum um EES. Ég segi því já.