Skaðabótalög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 12:46:23 (5428)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég ætla alls ekki að fara í kappræður við hæstv. dómsmrh. hér eða nú. Ég reikna með að þetta frv. sé verulega til bóta. Og ég hef hið mesta traust á prófessor Arnljóti Björnssyni. Ég dreg ekkert í efa að hann sé okkar færasti maður á þessu sviði og mér var kunnugt um að hann hafði skrifað þetta frv. Samúð hans er sýnist mér ekki síður með tryggingafélögunum þó ég sé ekkert að væna hann um að vera neitt sérstaklega andsnúinn tjónþolum heldur.
    Það sem ég var að biðja um var að málið yrði vandlega athugað og menn hröpuðu ekki að þessari lagasetningu. Ég dreg ekkert í efa að tryggingafélögunum lýst verr á þessa útgáfu en þá sem sýnd var í fyrra. Og ég fagna því að Tryggingaeftirlitið er spenntara fyrir þessari útgáfu. Ég ætla alls ekki að fara að mæla gegn því að ný skaðabótalög verði sett, heldur fer ég einungis fram á að hv. allshn. fari vandlega yfir þetta mál.