Skaðabótalög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 12:53:46 (5432)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það eru svo sem ekki afskaplega mörg orð sem ég þarf að hafa í viðbót. Ég saknaði þess þar sem hæstv. ráðherra var farinn að svara sumum efnisatriðum í athugasemdum mínum að hann svaraði ekki megingagnrýni minni --- og geri ég hlé á máli mínu, hæstv. forseti, þar til hæstv. ráðherra losnar og getur hlustað. Virðulegur forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra er laus núna og getur hlustað. Ég saknaði þess svolítið þar sem hæstv. ráðherra fór út í að svara einstökum athugasemdum að heyra ekki skoðun hans á því sem var mín megingagnrýni á þetta frv. og það er hvaða grundvöllur er lagður undir mat á því hvers vænst er að menn geti aflað sér, og þá meina ég bæði karla og konur, sem ævitekna í framtíðinni. Eins og fram kemur í frv. er grundvöllurinn þær tekjur sem viðkomandi hefur á þeim tíma sem hann verður fyrir slysi eða öðrum skaða og síðan er einhver sveigjanleiki sem erfitt er að átta sig á hvernig muni nýtast til þess að taka tillit til sérstakra aðstæðna og virðist þá sérstaklega vera miðað við fyrri reynslu. Það er að segja að ef atvinnutekjur eru e.t.v. lægri en tekjur undanfarinna ára þá mundi grunnurinn væntanlega verða leiðréttur í samræmi við það. En það vantar kannski að huga að því að hægt sé að gera ráð fyrir ákveðnum tekjum sem ungt fólk t.d. muni geta unnið sig upp í. Það er tekið meira tillit til aldurs núna en í upphaflegri gerð frv. og eins og ég lýsti yfir áðan þá tel ég það af hinu góða. Hins vegar sýnist mér að eftir sem áður geti það verið töluvert undir því komið hvernig viðkomandi er staddur í lífinu hverjar bætur verða og það er mikill munur frá því sem nú er þar sem læknisfræðilega matið gerir ekki slíkan mannamun.
    Ástæðan fyrir því að ég hef sérstaklega áhyggjur af þessu er sú að enn er það svo en verður þó vonandi ekki í framtíðinni að verulegur launamunur er á milli karla og kvenna og verulegur launamunur er milli ákveðinna stétta, sem ég vona einnig að verði leiðréttur í framtíðinni. Því má ætla að það verði einnig töluverður munur á þeim bótum sem reiknaðar verða og eru tengdar örorku. Miskabæturnar aftur á móti verða eftir sem áður reiknaðar út frá læknisfræðilegum forsendum og þar mun þessa munar ekki gæta.
    Ég held að það sé óuppgert mál að hve miklu leyti þetta muni þýða að verulegur munur verði á þeim fjárhæðum sem mönnum verða dæmdar fyrir varanlega mikla örorku eftir því hvernig á stendur hjá þeim, hvaða tekjur þeir hafa. Í rauninni er verið að gera því skóna að fólk geti ekki bætt við sig í tekjum nema að einhverju takmörkuðu leyti. Þarna þyrfti e.t.v. að koma eitthvert annað mat en tekjur líðandi stundar þegar slys eða áfall verður.
    Þar sem hæstv. ráðherra kom aftur upp í ræðustól og svaraði annarri athugasemd, sem ég út af fyrir sig ber líka svolitla ábyrgð á ekki síður en hv. 1. þm. Norðurl. v., fannst mér ástæða til að geta þessa. Ég ítreka að þótt ekki sé hægt að fullyrða eða ætla mönnum eitt eða neitt varðandi það hvernig þetta frv. verður til þá verður það niðurstaða þessa frv., eins og hæstv. ráðherra gat í framsögu sinni, að þær bætur sem greiddar verða af samfélaginu munu lækka. Spurningin er hversu rétt það er þar sem um verulega lækkun verður að ræða svo sem vegna minni háttar áverka. Eins og ég gat í fyrri ræðu minni er skilgreiningin ,,minni háttar áverki`` alltaf háð mörgum atriðum en ekki einu. Það sem er einum minni háttar áverki getur verið meiri háttar áverki öðrum. Ég sé það ekki reiknað til enda hvernig það mál verður leyst hér.
    Ég geri mér fulla grein fyrir að bæði þessi atriði sem ég nefni eru vandmeðfarin og læt mér ekki detta í hug að hér sé hægt að detta niður á einhverja einstaka patentlausn. Hins vegar held ég að það sé krafa okkar að reyna að horfa til framtíðar og skoða hvaða áhrif þessi lög muni hafa og hvort við erum sátt við þá niðurstöðu. Í því mun væntanlega vinna hv. allshn. liggja. Þar sem þar hafa verið ástunduð býsna góð vinnubrögð í velflestum málum kvíði ég þeirri vinnu ekkert. En ég bendi á að það samt sem áður að taka verður tillit til þessara atriða.