Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 14:25:48 (5442)

     Frsm. minni hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir talaði um málalengingar varðandi mitt mál áðan, álit minni hluta allshn. Ég get að sjálfsögðu ekki tekið undir þá skoðun hennar en ég fullvissa hana hins vegar um það að við erum ábyggilega ekki síður áhugamenn en hún um að tryggja að það verði öflug björgunarþjónusta á Íslandi. En þar sem hún nefndi að það væri óþarfi að rugla saman viðræðum við varnarliðið við þetta mál þá vildi ég bara ítreka að það er vegna þess að menn hafa rætt um það hvort hægt væri að kaupa þyrlu sem væri af sömu tegund og þær þyrlur sem varnarliðið notar. Það gæti verið hagkvæmara fyrir okkur.
    Ég ætla ekki að fara að ræða hér tæknileg atriði enda hef ég ekki til þess þekkingu en hins vegar held ég að það þurfi ekki að vera neitt vandamál í sambandi við þau mál sem hún ræddi, afísingarbúnað, sjálfstýringarbúnað og annað því um líkt, að þau tæki er öll hægt að fá í slíkar gerðir af þyrlum. Ég get að sjálfsögðu tekið undir það og nefndi það áðan í mínu máli að það hefði lítið gildi að vera að tala um kostnað í máli þar sem um er að ræða að kaupa tæki til björgunar á mannslífum. En ég tel hins vegar rétt og skylt að þær upplýsingar komi fram í umræðum um málið.