Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 14:35:57 (5446)

     Frsm. minni hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi það atriði sem hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson nefndi áðan um að hugsanlega sætum við uppi með þyrlu sem ekki fullnægði öllum kröfum þá held ég að það sé ekki rétt athugað og tel að í þessu sambandi sé rétt að geta þess að svo virðist að hægt sé að uppfylla allar þær kröfur sem um hefur verið rætt, öryggiskröfur, bæði varðandi afísingarbúnað, neyðarflot og fleira og einnig líklega svonefnda fjögurra ása stýriútbúnað eða sjálfstýringu sem gerir það að verkum, að því að mér er sagt, að þyrlan geti haldið kyrru fyrir yfir björgunarstað. Í sjálfu sér tel ég það ekkert markmið að við séum að ræða það hér hvers konar þyrlu á að kaupa eins og ég nefndi áðan. Það ekkert markmið heldur í sjálfu sér að vera að ræða það nákvæmlega hvort hægt er að ná þessum samningum við varnarliðið. Þetta er allt í skoðun og ég er sannfærð um að við fáum niðurstöðu úr þeirri skoðun og þeim viðræðum fljótlega og þá gætum við tekið ákvörðun og reynt að finna þann kost sem öllum þykir best henta.