Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 14:44:05 (5450)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu á sér allmerka sögu vegna þess að það efni sem frv. boðar að beri að framkvæma hefur verið samþykkt sem viljayfirlýsing á Alþingi í formi þáltill. Þá trúðu menn því að heimild í fjárlögum sem sett hafði verið inn í framhaldi af samþykkt þáltill. yrði notuð og ekki þyrfti að sækja þetta mál með töngum, ef svo mætti komast að orði. Ég hygg að allar umræður um það hvernig standa beri að rekstri þyrlunnar eða hvaða tegund eigi að kaupa séu annars eðlis. Við höfum aftur á móti horft á þá staðreynd að sjóslys og önnur slys ber skjótt að og íslenska þjóðin eyðir ekki miklum fjármunum til almannavarna eins og margar aðrar þjóðir þurfa að gera. Við búum við það að slysavarnafélög hafa létt af íslenskum skattgreiðendum verulegum fjárfúlgum, svo ekki sé meira sagt, með starfi sínu. Þetta hefur orðið til þess að það sem okkur aftur á móti finnst nauðsyn að fylgja eftir er að Landhelgisgæslan sé það vel búin að maður þurfi ekki að fyrirverða sig fyrir það öryggisleysi sem vissir þegnar þjóðfélagsins búa við.
    Ég hef heyrt vegið að hv. 1. flm. þessa máls á þeirri forsendu að mönnum þótti að hann sækja sitt mál af of miklu kappi. Mér finnst að slíkar athugasemdir á sínum tíma eigi ekkert að koma því við hvernig menn standa að afgreiðslu svona máls. Auðvitað verður þingið að taka þessar ákvarðanir. Þegar við höfum horft upp á það að heimild í fjárlögum hefur ekki verið notuð sækir vissulega að manni efi um að hæstv. fjmrh. hafi hugsað sér að nota þá heimild. Hann er sagður erlendis en embættið fer aldrei út. Embættið er hér. Spurningin er aðeins: Hver af ráðherrum landsins fer með það embætti í dag að vera fjmrh. í fjarveru hæstv. ráðherra Friðriks Sophussonar? Sá ráðherra þyrfti að mæta hér og svara því hvað er það sem ríkisstjórnin ætlar að gera í þessu máli. Með því er ég ekki að gera lítið úr orðum hv. 6. þm. Reykv. Ég tel aftur á móti eðlilegt vegna þeirrar tortryggni sem vissulega ríkir í garð hæstv. fjmrh. í þessu máli að vafanum sé eytt. Það væri gleðistund fyrir Alþingi Íslendinga að slík yfirlýsing kæmi hér úr ræðustól að ákveðið væri að fara í þyrlukaup.
    Ég vænti því þess að þrátt fyrir væringar, sem vissulega hafa verið um þetta mál, beri Alþingi Íslendinga gæfu til að breiðfylkja í þessu máli til stuðnings því frv. sem hér er og afgreiða það. Sá einn væri

sómi þingsins, m.a. í ljósi þess að búið var að samþykkja þáltill. um þetta mál.
    Í sjálfu sér mætti flytja langt mál og rekja þessa sögu. Ég hef ekki áhuga á því. Ég ætla ekki að fara að dreifa neinu salti í sár í þeim efnum en ég vil trúa því jafnframt að hv. 6. þm. Reykv. geri það í góðri trú að leggja það til sem hv. þm. leggur til. Það sem menn greinir fyrst og fremst á um er traustið á ráðherrunum. Traustið á ráðherrunum er ekki til staðar hjá stórum hluta þingsins í þessu máli.
    Ég játa það að í fyrra trúði ég því ekki að mönnum væri alvara í því að halda þannig á þessu máli að þeir ætluðu að draga fæturna og koma málinu þannig fyrir kattarnef í bili.
    Ég verð aftur á móti að viðurkenna að eftir að hafa horft á vinnubrögðin efast ég um að það sé verjandi að treysta þeim fyrir heimildinni einni saman án þess að hafa það skýrt hvað þeir eiga að gera. Þess vegna tek ég mjög undir það sem komið hefur fram hjá hv. 5. þm. Reykv. að forsrh. mæti hér og gefi skýr svör og sá hæstv. ráðherra sem fer með embætti fjmrh. þessa stundina geri það sömuleiðis. E.t.v. er þetta einn og sami maðurinn og gæti þá sparast ræðutími í púltinu.