Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 14:53:10 (5453)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Kristinn H. Gunnarsson) (frh.) :
    Virðulegi forseti. Það hefur þegar verið óskað eftir því að hæstv. forsrh. komi til þingfundar og enn hefur hann ekki sést hér svo ég býst við að ekki sé útséð með það hvort hann mætir eða ekki. Ég tel alveg nauðsynlegt, virðulegi forseti, að áður en umræðunni lýkur svari hæstv. forsrh. því hver áform ríkisstjórnarinnar eru. Hann er þess bær sem oddviti ríkisstjórnarinnar og einnig, sem ég hygg að ég fari nærri um, sem starfandi fjmrh. meðan hæstv. fjmrh. er erlendis.
    Ég vil draga aðeins saman það sem vakið hefur athygli mína í þessari umræðu eins og hún hefur verið fram til þessa. Fram að andsvörum áðan áðan hefur ekkert komið fram í máli ræðumanna sem mér hefur komið á óvart eða vakið athygli mína sérstaklega heldur hitt hverjir ekki hafa talað og hverjir eru ekki eru viðstaddir umræðuna. Það hefur t.d. vakið mikla athygli mína að alla umræðuna hefur ekki einn einasti ráðherra Sjálfstfl. sést í þingsalnum. Ekki einn einasti. ( Forseti: Hv. þm. skal bent á að hæstv. dómsmrh. hefur setið hér alla umræðuna. Að vísu í hliðarsal en hann hefur hlýtt á umræðuna.) Akkúrat, forseti. Það sem ég sagði var að ég hefði ekki séð einn einasta ráðherra Sjálfstfl. í þingsal. Hitt er alveg rétt og ætlaði ég að koma að því að ég hef hins vegar séð hæstv. dómsmrh. álengdar í hliðarsal þar sem hann hefur setið að því er mér virðist mjög gneypur undir þessari umræðu. ( EgJ: Það er fullt af þingmönnum Sjálfstfl. hér.) Ég er að tala um ráðherrana, hv. þm. Ég veit að hv. þm. Egill Jónsson er ekki ráðherra. ( Gripið fram í: Því miður.) Því miður fyrir hann a.m.k.
    Það hefur líka vakið athygli mína að einn af flm. málsins, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, Guðmundur Hallvarðsson, hefur ekki sést í umræðunni. Ég hef reyndar ekki séð hann í þingsal og ég spyr: Hvar er hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur? Er hann ekki hér til að tala máli sinna umbjóðenda sem formaður Sjómannafélags Reykjavíkur eða skiptir hann um föt þegar hann kemur í þingsal og hættir að vera talsmaður fyrir þau sjónarmið og verður talsmaður fyrir önnur sjónarmið --- og hvaða sjónarmið þá?
    Ég hef tekið eftir því á viðverutöflu að hv. þm. er fjarverandi. Ég hef einnig tekið eftir því að formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hefur ekki haldið ræðu í umræðunni þar til rétt áðan að hann fór upp í andsvör ( GAK: Og flutti mína ræðu.) og tilkynnti þá afstöðu sína að hann ætlaði ekki að styðja frv. heldur sagði: Ég legg allt mitt traust á ráðherrana.
    Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson verður að tala skýrar. Ætlar hann að greiða atkvæði með meiri hluta allshn. og með þeim sem vilja lögfesta þetta frv. eða ætlar hann að greiða atkvæði með minni hluta allshn. og þeim aðilum sem vilja vísa málinu til ríkisstjórnarinnar sem hefur verið með málið í 21 mánuð og 25 dögum betur án þess einu sinni að ljúka undirbúningi hvað þá að komið sé að framkvæmd?
    Ég vil skora hv. 1. þm. Vestf. að halda myndarlega fullmektuga ræðu og skýra þingi og þjóð frá afstöðu sinni í málinu, hvort hún er sú sama og kom fram í ritstjórnargrein Sjómannablaðsins Víkings sl. haust og ég las upp eða hvort hún er sú sama og fram kom í máli frsm. minni hluta allshn.
    Af orðum hv. þm. gat ég ekki annað ráðið en hann hygðist styðja sjónarmið minni hluta allshn.

Þá segi ég: Þá er Bleik brugðið þegar hv. 1. þm. Vestf., þingmaður Sjálfstfl. af Vestfjörðum, er farinn að láta forustu flokksins setja sig í bönd. Það hefur ekki gerst svo mig reki minni til í jafnmikilvægu máli og hér er til umræðu að 1. þm. Vestf. láti forustu flokksins, Reykjavíkurvaldið, ráða gjörðum sínum í þingsal.
    Það var einnig fróðlegt fyrir hv. þingheim og þjóðina, a.m.k. þann hluta þjóðarinnar sem á þess kost að fylgjast með umræðunum, að vita hver eru sjónarmið hv. 3. þm. Vestf. Ætlar hann að styðja þjóðina eða ætlar hann að styðja hæstv. forsrh.? Ætlar hann að styðja sjómennina á Vestfjörðum eða ætlar hann að styðja hæstv. forsrh.?
    Þessari spurningu verða menn að svara í umræðunni. Það duga engin undanbrögð og ekkert hálfkák. Það eina sem dugar eru efndir á því sem menn hafa gefið fyrirheit um. Það eru ekki efndir, virðulegir þingmenn, af hálfu þingmanna Sjálfstfl. að ganga fram til kosninga fyrir tæpum tveimur árum undir því flaggi að undanbragðalaust verði ráðist í kaup á björgunarþyrlu og vera í dag, tæpum 22 mánuðum síðar, með málið enn á undirbúningsstigi og vera að þvæla því þannig að það er að verða komið í nánast óleysanlegan hnút. Meira segja að því er virðist í andstöðu við þá sem best þekkja málið, þ.e. Landhelgisgæslu Íslands. Það eru ekki efndir á fyrirheitum.
    Hv. þm. Sjálfstfl., sem ítrekað hafa frestað framgangi þessa máls í vetur með beiðnum um að málinu verði frestað í nefnd og málinu verði frestað í þingsal vegna þess að þingflokkur Sjálfstfl. þurfi að ræða þetta í sinn hóp, verða að svara fólki því hvort þeir ætli að standa við sín fyrirheit og sínar skýru yfirlýsingar eða hvort þeir ætli að ganga á bak orða sinna. Er þetta kannski bara ómerkilegur þingflokkur sem segir eitt fyrir kosningar og gerir annað eftir kosningar?
    Þingflokkur Sjálfstfl. verður að gefa skýr svör við þessari spurningu. Ekki hvað síst þegar hann gekk fram undir forustu nýs formanns sem sagði það vera verkefni númer eitt í íslenskri pólitík að bæta pólitískt siðferði.
    Við skulum sjá hvernig það hefur batnað í tíð núv. ríkisstjórnar. Við sjáum það við atkvæðagreiðslu í þessu máli hvernig pólitískt siðferði hefur batnað undir forustu Sjálfstfl. Ég kalla það ekki framför í þeim efnum þegar menn gefa út skilmerkileg loforð fyrir kosningar en ganga á bak þeim eftir kosningar.
    Hæstv. núv. ríkisstjórn hafði til þess allar heimildir sem þurfti á fjárlögum ársins 1991 til að ganga frá málinu og gerði það ekki. Hún hafði í annað sinn allar heimildir sem hún þurfti til þess í fjárlögum árið 1992 en gerði það ekki. Nú koma menn og segja: Hún hefur heimildir til þess nú í þriðja sinn á árinu 1993, og vilja að við trúum því að hún muni eitthvað frekar gera á þessu ári en hin tvö.
    Ég get ekki tekið undir það með hv. 1. þm. Vestf. að ég treysti hæstv. ráðherrum til þess að efna orð sín og fyrirheit. Ég tel að þingið verði að taka af skarið með skýrum fyrirmælum til hæstv. ríkisstjórnar svo tryggt sé að orðið verði við vilja Alþingis sem liggur fyrir með þáltill. frá 12. mars 1991.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að segja fleira að sinni þar sem ég vænti þess að hinir þögulu þingmenn hins stóra þingflokks muni fá orðið og gera grein fyrir afstöðu sinni. Geri þeir það ekki þá mun mönnum verða það ljóst að þeir eru orðnir fangar kolkrabbans í Reykjavík.