Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:24:49 (5455)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða um endurnýjun björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna er í sérkennilegum farvegi. Þegar mál sem hefur verið unnið að um allt land með miklum áhuga og þar sem markmiðið er það sama fer út í persónulegt níð og svívirðingar úr ræðustóli í Alþingi, svívirðingar á aðila sem hafa unnið að framgangi mála á ágætan hátt, svívirðingar á aðila sem hafa stundað björgunarstarfsemi við Ísland um langt árabil með miklum árangri sem gefur ekki ástæðu til þess að slengja fram orðinu ,,Kanadekur``.
    Það er ekkert skrýtið kannski miðað við spenntar taugar síðasta ræðumanns að hann hlægi þegar svo er tekið til orða. ( Gripið fram í: Hver var að hlæja?) Þetta mál er nefnilega síst af öllu hlægilegt og menn ættu að sjá sóma sinn í því að keyra ekki úr hófi fram og fara offari. ( ÓÞÞ: Hver er aksturshraðinn?)
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að sjálfstæðismenn hafa lagt mikla áherslu á þetta mál, til að mynda með landsfundarsamþykkt og þeir ásamt mönnum úr öllum flokkum hafa unnið að framgangi málsins. Það var nefnilega slys þegar menn ætluðu sér að gera þetta mál að pólitísku máli með því frv. sem hér liggur fyrir og beindist ekki í þá átt að ná árangri í endurnýjun á björgunarþyrlu. Það er mjög ólíklegt að nokkur forustumanna stjórnarandstöðuflokkanna hefði talið sér fært að vera fyrsti flm. á slíku frv. ef ekki var hægt að nota einhvern annan í staðinn.
    Það eru mörg atriði sem er ástæða til að staldra við í þessari umræðu. T.d. er ástæða til að vara við því að tala of mikið um eina tegund við slíka endurnýjun. Af hverju er það óklókt í umræðu á Alþingi? Ef menn kynna sér markaði og allt söluferli þyrla í heiminum, þá hreyfist það mjög til. Það liggur fyrir niðurstaða ráðgjafanefndar sem vann faglega að málinu og skilaði niðurstöðu fyrir nokkrum mánuðum þar sem hún mælir með nokkrum tegundum til skoðunar og könnunar og hefur valkosti. Það er auðvitað þannig sem menn hljóta að vinna. ( Forseti: Nú hlýtur forseti að minna hv. 3. þm. Suðurl. á að til stóð að hefja hér umræðu utan dagskrár kl. 3.30. Nú vill svo til að það er hv. 3. þm. Suðurl. sem um hana bað og forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann kjósi að ljúka máli sínu og fresta þar með umræðunni um einhverjar mínútur, og forseti skal sætta sig við það, eða hvort hann vill gera hlé á máli sínu og hefja nú þegar umræðu utan dagskrár.)
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan gera hlé á máli mínu.