Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:44:57 (5461)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja athygli þingsins á alvöru þess máls sem hér er rætt. Verkfall stýrimanna um borð í Herjólfi hefur staðið í þrjár vikur og sér alls ekki fyrir endann á þeirri kjaradeilu. Þvert á móti virðist hún, ef dæma má af fréttum t.d. í Morgunblaðinu í dag, komin í enn verri hnút en í upphafi þar sem stjórn Herjólfs hefur sagt undirmönnum á skipinu upp störfum. Þó stóðu þeir ekki í vinnudeilum og höfðu lýst því yfir að þeir gerðu engar kröfur í komandi samningum samkvæmt tilboði sem lagt var fram og höfðu einnig lýst sig tilbúna til að vinna að gerð heildarkjarasamnings á komandi samningstíma. Eina svarið sem barst við þessi tilboði voru uppsagnarbréf undirmanna á Herjólfi. Ég tel að með því hafi stjórn Herjólfs sett þessar deilur í enn verri hnút en áður. Ég held ekki að lagasetning sé í dag eina eða rétta úrræðið sem eftir er og að reynt hafi verið til þrautar að semja. Hins vegar er það alveg ljóst að ef þessi kjaradeila verður ekki leyst fljótlega og uppsagnir undirmanna dregnar til baka, þá hlýtur að koma til einhvers konar íhlutunar utanaðkomandi aðila, jafnvel ríkisvaldsins, í ljósi þess hversu gífurlegt öryggistæki Herjólfur er fyrir Vestmanneyinga og það alvarlega ástand sem blasir við ef deilan leysist ekki.