Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:46:24 (5462)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Þeir mundu kippa kjöftum austur á Selfossi hefði vegurinn yfir Hellisheiði verið grafinn í sundur 3. febr. eða uppi á Akranesi og Borgarfirði ef vegurinn í Hvalfirði hefði verið rofinn fyrir þremur vikum síðan. Annars er í mínum huga stöðvun Herjólfs nú sönnun þess að vinnulöggjöfin er um margt úrelt. Um borð eru 16 starfsmenn í fimm verkalýðsfélögum. Tveir menn í einu þessara félaga hafa nú stöðvað skipið og rofið þjóðleiðina um sinn.
    Stjórn Herjólfs hefur síðan í ein 12 ár flotið sofandi að feigðarósi, vitað sem var að allan þennan tíma töldu stýrimenn skipsins sig órétti beitta í launakjörum. Hins vegar er það hámark klaufalegra vinnubragða stjórnarinnar þegar deilan er brostin á að í stað þess að ræða við stýrimennina sjálfa er ráðist að undirmönnum skipsins, hásetum og þernum, og þeim sagt upp störfum. Þetta er kórvilla í málinu og varla forsvaranlegt og til þess eins fallið að herða hnútinn.
    Alþingi leysir ekki þessa deilu. Við setjum ekki lög á tvo eða þrjá menn. Við þurfum hins vegar að endurskoða vinnulöggjöfina. Herjólfsmálið verður að leysa í þessari viku. Ég tel að fulltrúar frá öllum starfshópunum fimm ásamt stjórn skipsins verði að setjast niður, meta vinnuframlag og ábyrgð. Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh. að bæjarstjórnin verður að beita sér meira í þessu máli en hún hefur gert það sem af er deilunni. En forsenda þess að slíkt sé hægt hlýtur að vera að uppsagnir undirmannanna verði dregnar til baka. Þeir hafa ekkert til saka unnið.