Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:48:57 (5463)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Mér þótti dálítið undarlegt að umræðan skyldi hefjast að hæstv. samgrh. fjarverandi en hann er nú hingað kominn og hefur fylgst með umræðunni undanfarnar mínútur.
    Tilgangurinn með þessari umræðu er mér ekki alveg ljós. Mér skilst á frummælanda að hann telji það eitthvert umhugsunarefni fyrir ríkisstjórnina að setja lög í málinu en hann leggur það ekki til. Ég tel að það eigi að reyna til þrautar að ná samkomulagi um þessi mál. Ég held helst að ef á að nást sæmilega sanngjörn niðurstaða þurfi að fara fram einhvers konar starfsmat hjá starfsmönnum þessa fyrirtækis. Um það eru auðvitað til reglur og stundum hefur það farið farsællega að láta fara fram starfsmat. Þau verkalýðsfélög sem eiga þarna hlut að máli gætu gert samkomulag við Herjólf um að þannig mat færi fram á störfum starfsmanna og líka um það hvernig ætti að fara með þann mismun sem kæmi fram á þeim kjörum sem menn búa núna við og þeim kjörum sem kæmu út úr þessu starfsmati.
    En það er annað sem ég vildi vekja athygli á og það er að kannski er til lítils að leysa þessa deilu með starfsmati eða einhverju öðru vegna þess að ég veit ekki betur en það sé yfirlýst stefna hæstv. samgrh. og ríkisstjórnarinnar að segja þessum starfsmönnum öllum saman upp eftir fáeina mánuði, fyrr en seinna a.m.k. Því hefur verið lýst yfir á fundum með samgn. af forráðamönnum Vegagerðarinnar að sú stefna væri í aðsigi og það ætti að taka yfir með þeim hætti að segja starsmönnum þessara fyrirtækja í samgöngum upp og bjóða út reksturinn. Og til hvers er þá barist?