Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:51:27 (5464)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem kom hér fram hjá ræðumanni áðan að það er hámark klaufalegra vinnubragða hvernig hefur verið staðið að verki varðandi deilu stýrimanna á Herjólfi og að í þeirri deilu skuli hásetum skipsins og þernum vera sagt upp er með svo miklum ólíkindum að þessi ágæta stjórn Herjólfs ætti að sjá sóma sinn í því að víkja og aðrir menn ættu að koma að málinu til þess að leysa það.
    Ef þessi umræða hér verður þess valdandi að menn telji nauðsyn á að endurskoða vinnulöggjöfina, þá þykir mér þessi deila vera farin að velta heldur þungu hlassi. Vissulega er það svo þá tveir deila að sitt sýnist hvorum þar um. Engu að síður er það rétt sem hefur komið fram að í ein 12 ár hefur þessi deila verið að magnast og hver sem sá þetta mál í fjarska mátti gera sér fulla grein fyrir því að þetta gæti ekki endað með öðru en ósköpum og með ólíkindum að stjórnarmenn Herjólfs skyldu sitja á þessu vandamáli í jafnlangan tíma og raun ber vitni, eins og ég kom að í upphaf máls míns.
    Hér hafa menn verið að bera saman launamál áhafnar og tínt til einhverjar tölur. Talnaflóð og talnaleikur í þessu máli á ekkert skylt við deiluna sjálfa vegna þess að þegar menn eru að geta um mánaðarlaun verða menn líka að bera saman lengd vinnutíma og hvað á sig er lagt í því sambandi. Þess vegna tel ég ekki um nema tvennt að ræða: Að stjórn Herjólfs dragi uppsagnir háseta og þerna til baka og sjá svo sóma sinn í því að víkja úr stólum og leyfa öðrum mönnum að komast að.