Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 15:54:00 (5465)

     Guðjón A. Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Deilan á Herjólfi snýst um kaup og kjör stýrimanna og auðvitað á hún alls ekki að valda því að undirmönnum skipsins sé sagt upp. Þarna er um samanburð í launum að ræða en það voru ekki undirmenn sem boðuð verkfall. Það voru stýrimenn og deilan snýr að þeim.
    Það hafa verið nefndar tölur í þessu sambandi um kaup og kjör á þessu skipi og líka nefnt að menn yrðu að líta til vinnutímans. Ég held að það sé rétt að upplýsa hér, svo menn velkist ekkert í vafa um það, að fyrirkomulaginu á þessu skipi er hagað þannig að miðað við sama vinnutíma hafa undirmenn hærra kaup en stýrimenn. Um það held ég að þurfi ekkert að deila og skal skýrt tekið fram að það er fyrir sama vinnutíma. Það er því ekkert undarlegt þó stýrimenn í þessu tilviki séu mjög óánægðir með sína stöðu á skipinu og búnir að vera það lengi eins og hér hefur komi fram. Það á hins vegar ekki að verða til þess að deilan flytjist frá stýrimönnum yfir á undirmenn og þeim sé sagt upp og þeir settir í einhverja sérstaka stöðu. Þetta held ég að sé rétt að komi hér fram. Ég er alveg viss um að það er ekki vilji Stýrimannafélags Íslands, sem boðaði til verkfalls í þessu tilviki, að þannig sé farið með málið.