Herjólfsdeilan

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:00:10 (5468)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það verður að afsakast þó ég geti ekki vegna anna verið viðstaddur umræðu sem ég ekki vissi um. Ég man raunar ekki dæmi þess áður að efnt sé til utandagskrárumræðu á Alþingi þar sem beint er fyrirspurn til ráðherra án þess að honum sé tilkynnt um umræðuna en það eru ný þingsköp sem maður kynnist svona smátt og smátt. Má segja að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem við erum ekki sammála um þingsköp, ég og sú sem nú situr í forsetastóli.
    Að öðru leyti vil ég segja um það sem hv. fyrirspyrjandi gerði hér að umtalsefni að auðvitað er það rétt að ég hef í hyggju að taka öðruvísi á málefnum ferja og flóabáta en áður hefur verið. Nú er svo komið að heildarskuldir á ferjum og flóabátum eru ríflega 2 milljarðar kr., 2,3 milljarðar kr. um síðustu áramót. Ef við förum þrjú eða fjögur ár aftur í tímann þá dugði á fjárlögum að ætla 1--2 millj. kr. til þess að greiða vexti og afborganir af lánum sem sýnir að myndarlega hefur verið staðið að í millitíðinni og kallar auðvitað á önnur vinnubrögð.
    Þetta mál hef ég áður gert að umræðuefni en á þeim tveim mínútum sem ég hef til umráða get ég auðvitað ekki svarað þessu ítarlega.