Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:07:17 (5473)

     Árni Johnsen (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég var kominn þar í máli mínu sem ég fjallaði um niðurstöðu ráðgjafarnefndar um þyrlukaup og byggðist sú niðurstaða á því að mælt var með að kannaðir yrðu kostir á að kaupa eina af nokkrum tegundum sem til greina komu. Það var eðlileg og klók málsmeðferð, bæði með tilliti til þess að það er æskilegt að hafa svigrúm þegar komist er að niðurstöðu í þeim efnum og svo hitt að menn voru með því ugglaust að vinna leið til þess að ná sem hagkvæmasta verðinu.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson vísaði til þáltill. frá 1991. Þáltill. er ályktun, hún er ekki ákvörðun en hún er mjög ákveðin ábending og tilmæli og sem betur fer hefur verið unnið að því máli þó að menn hafi deilt um hraða málsins.
    Ég nefndi fyrr í ræðu minni að það væri undarlegt að þessi umræða færi út í mjög harðskeyttar svívirðingar á menn sem hefðu sinnt ákveðnum verkefnum í framgangi þessa máls og aðdróttanir á þá sem fara með stjórn mála um að þeir bæru ábyrgð á einhverju, einhverju sem var þó ekki tilgreint en var eitthvað stórt. ( IBA: Hvaða svívirðingar er maðurinn að tala um?) Ég vék einnig að því hvernig hv. þm. réðst á þá þjónustu sem varnarliðið hefur veitt á Keflavíkurflugvelli. ( IBA: Hvernig réðst ég á hana? Er maðurinn . . .  ) ( Forseti: Engin frammíköll.) Það er ekki að túlka það öðruvísi en að ráðist sé á þjónustu þegar talað er með fyrirlitningu með orðinu ,,Kanadekur``. (Gripið fram í.) Þessir menn sem beint var til orðið ,,Kanadekur`` hafa rekið björgunarstarfsemi og frá 1971 hefur björgunardeild varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli bjargað 258 mannslífum og íslenskur þingmaður ætti að sjá sóma sinn í því að þakka fyrir slíkt starf frekar en væna menn um ónytjungshátt. (Gripið fram í.) Það er ótrúlegt á hvaða vettvangi og í hvaða farvegi þessi umræða er hjá hv. þm., hreint ótrúlegt. Það er á svo lágu plani að það er eiginlega til skammar að taka þátt í umræðunni. ( IBA: Góði, farðu að hætta þessu.)
    Það er kannski mergurinn málsins í þessari umræðu að það frv. sem hér er til umræðu er út í hött, það er óþarft. Það er illa þingtækt eins og það er byggt upp. Þess utan er það fyrst og fremst óþarft vegna þess að það hefur verið unnið að frágangi málsins á ágætis hátt. Það er alveg ljóst að sú vinna sem búið er að leggja fram mun leiða til þess að innan tíðar verður lokið því verkefni sem menn töldu þurfa að vinna í því sambandi. Þær athuganir, þær upplýsingar sem hafa verið að berast síðan ráðgjafarnefndin skilaði síðasta áliti hafa þétt netið í þessu mikla hagsmunamáli sem svo víða er mikill áhugi fyrir í þjóðfélaginu og stjórnvöld hafa fylgt því eftir og er fyllilega treystandi til þess að ljúka því máli á þessu ári, fyllilega treystandi. Uppþot í málinu eins og átt hafa sér stað með þessu sýndarfrv., þessum málflutningi sem hefur byggst á níðsóknum, er ekki af hinu góða, það er alveg klárt mál. Og það er ekki í þágu málefnisins.
    Það var líka sérkennilegt hjá hv. 1. flm. þess frv. sem hér um ræðir að hann talaði um að nýja þyrlan væntanlega ætti að vera staðsett hér í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu, en gamla þyrlan átti að fara út á land. Gamla þyrlan var nógu góð til þess að fara út á land. Hvað er hv. þm. að meina? Hefur þingmaðurinn einhver rök fyrir því að eitt tæki frekar en annað eigi að vera staðsett úti á landi umfram það

að vera staðsett í Reykjavík? Það væri fróðlegt að heyra faglegar upplýsingar um það hvers vegna ný þyrla, ef um það er að ræða að staðsetja gamla og nýja þyrlu hvora á sínum á stað á landinu, ætti endilega að vera í Reykjavík fremur en úti á landi? Ætli það ætti ekki að vera eftir aðstæðum? Ætli það væri til að mynda ekki æskilegra ef sá háttur yrði ofan á að staðsetja þyrlu hluta úr ári eða árið um kring úti á landsbyggðinni, ætli það væri ekki nær að öflugri þyrlan væri staðsett til að mynda á Vestfjörðum yfir vetrarmánuðina fremur en í Reykjavík? Þessi skoðun hv. flm. frv. sýnir einfaldlega í hvaða pytt hann er fallinn með yfirlýsingum og sleggjudómum.