Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:14:28 (5474)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það gætti greinilega nokkurs misskilnings eða vankunnáttu hjá hv. þm. Árna Johnsen á sögu þessa máls. Hann hélt því fram hér að það hefði þurft tvö ár til þess að safna saman upplýsingum og faglegu áliti í málinu. Það er rangt. Þegar Alþingi samþykkti 1991 eftir allmiklar umræður bæði hér í þingsölum og annars staðar þann vilja sinn að gengið yrði til kaupa á þyrlu, þá var skipuð nefnd af þáv. dómsmrh. og fjmrh. til þess að skoða þetta mál. Í þeirri nefnd, sem fór m.a. til Bandaríkjanna, til Frakklands og til Noregs, var forstjóri Landhelgisgæslunnar og sérfræðingar Landhelgisgæslunnar ásamt ráðuneytisstjóra dómsmrn. og þeim skrifstofustjóra fjmrn. sem hefur yfirumsjón með eignakaupum ríkisins. Þessir sérfróðu menn, starfsmenn Landhelgisgæslunnar, forstjóri Landhelgisgæslunnar, ráðuneytisstjórinn í dómsmrn. og skrifstofustjóri fjmrn. skiluðu faglegri niðurstöðu á fyrri hluta árs 1991 og sú niðurstaða var alveg skýr. Það hefur þess vegna ekki þurft að bíða í tvö ár eða leita fram og aftur að einhverjum öðrum sjónarmiðum nema vegna þess að menn vildu tefja málið. Eða er hv. þm. Árni Johnsen að gefa það í skyn hér að forstjóri Landhelgisgæslunnar sem skilaði áliti á fyrri hluta árs 1991 hafi ekki verið bær um að skila því áliti? Það eru sérkennilegar aðdróttanir í garð forstjóra Landhelgisgæslunnar.