Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:25:36 (5480)

     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins undirstrika það að ég harma það að hv. þm. hér, flm. þess frv. sem hér liggur fyrir, hafi farið út á þann hála ís að ráðast á björgunardeild varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, deild, sem hefur bjargað 258 mannslífum á Íslandi. ( IBA: Hver hefur ráðist á hana? Rökstyddu málið, maður.) ( Forseti: Engin frammíköll.) Það er engin spurning þegar menn tala með vanvirðingu um Kanadekur, eltingarleik við Keflavíkurflugvöll, eltingarleik við Kanann, þá eru menn með lítilsvirðingu og það þarf enga sérstaka umræðu um það. Það er einföld skýring á íslensku máli.
    Það kom hér einnig fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að fyrir hefðu legið ákveðnar tillögur, endanlegar tillögur, um þyrluval fyrri hluta árs 1991. Það er líka hægt að upplýsa að það er rangt hjá fyrrv. hæstv. fjmrh. Það kom bréf til dómsmrh., Óla Þ. Guðbjartssonar, 16. apríl 1991, hálfum mánuði fyrir kosningar þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Að ósk fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar og yðar dómsmrh., hafa fulltrúar Landhelgisgæslu, dómsmrh. og fjmrh. heimsótt þyrluframleiðendur austan hafs og vestan til að kynna sér þær þyrlur sem líklegastar væru til að uppfylla þau skilyrði sem fram eru sett í greinargerð með þáltill. um kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Auk þess var bandaríska strandgæslan heimsótt, norski flugherinn og Helikopter Service í Noregi sem hafa reynslu í rekstri þeirra þyrlna sem kannaðar voru.`` Með béfi þessu fylgja drög Þorsteins Þorsteinssonar flugvélaverkfræðings og Páls Halldórssonar yfirflugstjóra að faglegum samanburði að þeim þyrlum sem taldar eru komast næst því að uppfylla áðurnefnd skilyrði. Það er talað um Sikorsky, Aerospatiale, þ.e. Super Puma, það er talað um Bell Textron og það er talað um Sea King.
    Það er niðurstaða þessa bréfs, virðulegur forseti, að áður en hægt sé að taka ákvörðun um kaup á stórri björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna þá telji undirritaður, Gunnar Bergseinsson, að það þurfi að gera úttekt á flugrekstri Gæslunnar í samráði við fjmrn. og að það liggi þá m.a. fyrir ákvörðun um það hve margar þyrlur skuli gerðar út til eftirlits og björgunarstarfa. Það er engin niðurstaða sem hv. fyrrv. fjmrh. hélt fram að væri til staðar, það er rangt. Hér er plaggið sem undirstrikar það. ( Gripið fram í: Nei. Það undirstrikar það ekki.)