Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:28:32 (5482)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst vekja athygli hæstv. forseta á því að sú regla er í þingsköpum um andsvör að ræðumanni er veitt tækifæri til að svara andsvari þess sem andsvarið flytur hverju sinni strax á eftir að það er flutt. Ekki rétt, virðulegur forseti? ( Forseti: Það er rétt.) Já, það er rétt. Það gerði hv. þm. Árni Johnsen ekki þegar ég flutti mitt andsvar. ( ÁJ: Var sárt að fá síðar?) Nú segir þingmaðurinn: Var sárt að fá það síðar? Þar fær forseti það upplýst að hv. þm. Árni Johnsen var vísvitandi að fara í kringum þingsköpin ( ÁJ: Ég vakti máls á því . . .  ) til að koma í veg fyrir að ég gæti svarað honum strax. Því hann vissi

ósköp vel, eins og nú hefur komið fram að með því að neita að taka rétt sinn til að svara mér strax en bíða með að svara mér undir andsvari við ræðu Eyjólfs Konráðs Jónssonar sem hv. þm. vék ekki að einu orði í sínu andsvari, þá var hv. þm. Árni Johnsen að spila á þingsköpin til að koma í veg fyrir að ég gæti samkvæmt réttum og eðlilegum þingsköpum svarað honum. ( Gripið fram í: Hann er vanur gítarleikari.) Hann bar það hins vegar á mig að ég hefði farið með ósatt mál, hæstv. forseti, en gerði það með þeim hætti að það var utan við þær leikreglur sem gilda hér í þingsalnum.
    Það er auðvitað vont, virðulegi forseti, að forseti skuli ekki áminna þingmann sem brýtur þannig eðli andsvara umræðunnar hér í þinginu. Hv. þm. Árni Johnsen hafði rétt samkvæmt þingsköpum til að svara hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni í því andsvari sem hann fór upp. Það gerði hann ekki, ekki einu orði. ( Gripið fram í: Það er rangt hjá þingmanninum.) En hann notaði hins vegar tímann til að lýsa því yfir að ég hefði farið með ósannindi. Mér var fullkunnugt um það bréf sem hann las hér upp, fullkunnugt um það. Ég þekki þessa sögu mæta vel, miklu betur en hv. þm. ( Gripið fram í: Það sýnir sig.) Það kom fram í þessu bréfi, sem þingmaðurinn las hér, að starfsmenn Landhelgisgæslunnar, sérfræðingar Landhelgisgæslunnar, flugmenn Landhelgisgæslunnar, gerðu faglegan samanburð. Þeir gerðu faglegan samanburð á fyrri hluta árs 1991 á þeim þyrlum sem til greina komu. Sá faglegi samanburður lá fyrir fyrri hluta árs 1991. Þannig að það er staðfest með þessu bréfi sem ég sagði hér áðan að færustu faglegu sérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru búnir að skila áliti á þessum tíma. Það sem forstjóri Landhelgisgæslunnar var hins vegar að fara fram á í þessu bréfi og öllum var kunnugt um var fullvissa um það að Landhelgisgæslan fengi af hálfu fjmrn. það rekstrarfé sem tengdist þeim breytingum á starfsemi Landhelgisgæslunnar sem yrðu samfara því að þyrlan yrði keypt.