Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:51:45 (5486)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram fyrr í umræðunni af hálfu hv. 1. flm. þessa máls að honum fyndist tímaeyðsla að svara tilteknum ummælum frá hv. 3. þm. Suðurl. Á hinn bóginn er það svo að þessi lagasmíð og þetta lagafrv. og þessi umræða vegna þess er í sjálfu sér tímaeyðslan og sú hin eina.
    Ég ætla ekki að öðru leyti að fjalla um ræðu hv. þm. því mér fannst satt best að segja að ræðan væri á því plani að hún væri nánast ekki svara verð. ( Gripið fram í: Árna Johnsens?) Hv. 1. flm. till.
    Varðandi hins vegar það efni sem menn hafa vikið að í tengslum við þetta frv. um kaup á þyrlu þá liggur það fyrir og það hefur verið samstaða um að veita allar heimildir til þess að slík þyrla sé keypt. Menn hafa viljað halda því fram að öll efnisatriði í þessu stóra máli hafi legið fyrir og frekari athugana hafi ekki þurft við og að þessar athuganir sem menn hafi haft uppi bendi til þess að menn vilji tefja málið. Það er ekki svo. Það hefur mjög mikið verið að gerast einmitt á þyrlumörkuðunum á síðustu missirum, mjög mikið verið að gerast á þeim mörkuðum. Og þeir sérfræðingar sem hæstv. dómsmrh. skipaði á sínum tíma til að fara yfir málið telja sig þurfa örfáar vikur nú til að fara yfir þær síðustu upplýsingar sem fyrir liggja í málinu. Það verður engin fyrirstaða og ekkert því til fyrirstöðu að því loknu, þegar í vor, að ganga til samningaviðræðna um þetta mál. Það liggur fyrir ríkur vilji hjá þinginu að þjóðin festi kaup á þessu björgunartæki. Að vísu er það svo, og það eiga menn að hafa í huga, að það ríkir ekkert neyðarástand í þessum efnum hér á landi sem betur fer. Við búum að þessu leyti við betri aðstöðu en flestir aðrir.
    Hvað veru varnarliðs hér á landi áhrærir þá er það staðreynd, staðreynd sem við ættum að þakka en ekki vera með skens og þess háttar af því tilefni, að þyrluþjónusta varnarliðsins hefur komið að gríðarlegu gagni. Og það eru mjög margir Íslendingar sem hugsa til þeirrar þjónustu með mjög þakklátum huga.

Staðreyndin er sú að þar eru fjórar öflugar nýjar þyrlur og hin fimmta á leiðinni. Staðreyndin er einnig sú að við búum við þyrlukost sjálfir sem er öryggistæki í þessum efnum. Þannig að það er alveg ljóst að það er ekkert neyðarástand á ferðinni. Það breytir ekki hinu að það er ríkur vilji til þess í landinu að festa kaup á öflugri þyrlu. Til þess hafa verið skapaðar heimildir bæði með þáltill. hér á Alþingi og eins með tillögu sem fjárveitingavaldið hefur til að hrinda slíku máli í framkvæmd.
    Þegar menn tala um að verið sé að horfa til varnarliðsins sérstaklega og ýta málinu suður á völl, eins og það er svo smekklega orðað, þá eru menn annað hvort ekki inni í málinu eða að reyna að byggja hér upp umræður sem eiga ekki stoð í veruleikanum. Það eina sem menn hafa viljað skoða í þeim efnum og hafa algerlega fyrir framan sig er það hvort þyrla sem keypt yrði, ég vek athygli á því, keypt yrði og rekin af íslenskum aðilum þeim sem hafa slíka þyrlu rekið hingað til, hvort slík þyrla gæti verið sams konar eða sambærileg við aðrar þyrlur sem eru á þessu svæði þannig að menn gætu nýtt sér þá kosti sem slíku fylgja. Þetta er ekki gert í þeim tilgangi að slík þyrla sé endilega keypt heldur eingöngu í þeim tilgangi að menn hafi alla kosti fyrir framan sig.
    Menn eru hér að tala um gríðarlega fjárfestingu. Sú þyrlutegund sem mest hefur verið nefnd og margir hafa mælt með, ég geri ekki lítið úr því, er talin kosta 800 millj. kr. ný. Með varahlutum og þjálfun nálægt 1 milljarði kr., 1.000 millj. kr. Það er algjört ábyrgðarleysi að finna að því að menn vilji vanda mjög vel til undirbúnings á slíkum kaupum á tæki sem á að duga okkur lengi og er fyrir 1 þús. millj. kr.
    Hv. 1. flm. las hér í þinginu upp úr grein eftir þyrluflugmann. Þar kom fram að þetta mál hefði verið í vinnslu í fimm ár. Þar af fóru með stjórn ríkisins, forsrh. og fjmrh. á þeim tíma, sem eru tveir flm. að þessu lagafrv. Í þrjú ár af þessum fimm áttu þeir þess kost að hrinda þessu máli í framkvæmd en gerðu ekki.
    Hv. 3. þm. Suðurl. vakti athygli á að þetta frv. væri auðvitað ekkert þingtækt. Og það var kallað fram í og hann beðinn að rökstyðja það. Það liggur fyrir í þingskjölum álit lagaprófessors við háskólann um það efni, mjög svo afgerandi, þannig að enginn vafi er í þeim efnum.
    Það segir hér, með leyfi forseta: ,,Gildi slíkrar lagasetningar er raunar takmarkað ef það er þá nokkuð. Samningur felur í sér að samningsaðilar, tveir eða fleiri, komast að sameiginlegri niðurstöðu og verður ekki séð hvernig hægt er að lögskylda annan samningsaðilann til þess. Slík fyrirmæli fá einfaldlega ekki staðist þannig að framangreindar hugleiðingar um skyldur og ábyrgð ráðherra eru ástæðulausar,`` eins og hann síðan kemst að orði þar sem hann fjallar um það á undan. Þannig að lagafyrirmælin í þessum frumvarpsbúningi fá ekki staðist. Þess vegna stend ég við það að þetta lagafrv. kemur þessu máli ekkert við, hefur ekkert með þetta mál að gera. Það er fullur vilji á því að menn komist hér að sameiginlegri niðurstöðu um það að þyrla sé keypt af þeirri gerð sem ályktað hefur verið um með þeim eiginleikum sem við teljum þurfa á að halda við okkar aðstæður. Vilji ríkisvaldsins stendur til þess. Ríkisvaldið mundi ekki vera að láta vinna svo undirbúningsmikla vinnu, kostnaðarsama vinnu, ef þessi vilji væri ekki fyrir hendi. Auðvitað þurfa menn síðan að hafa fleiri en einn kost inni í myndinni. Og það er afskaplega heimskulegt að reyna að vinna að málinu þannig að aðeins einn kostur væri inni í þessari mynd. Ef fleiri en einn kostur væru í myndinni þá er líklegra, miklu líklegra en ella, að við fáum kjör sem okkur henta.
    Það frv. sem hér er til umræðu breytir engu um þann vilja sem er á því að þetta öfluga björgunartæki verði til staðar í landinu. Breytir engu. Ég tel þó að þetta frv. sé þess eðlis að það geti heldur skaðað málið en hitt ef samþykkt yrði.