Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:03:21 (5491)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Varðandi prófessorinn þá held ég að það skýri sig sjálft og það skilji þeir sem skilja vilja. En varðandi það hvort um sambærilegan búnað sé að ræða þá hef ég ekki annað en það sem upp kom í umræðu innan allshn. þar sem það er alveg ljóst að hér er ekki um sambærilega þyrlu að ræða með sambærilegum búnaði ef kostnaður á að vera álíka eða minni en við aðrar tegundir þyrlna. Að sjálfsögðu verðum við ekki vitrari en þær upplýsingar eru sem við fáum í allshn. og ég hef rökstuddan grun um að þessar upplýsingar séu réttar vegna þess að ég veit ekki betur en innan Landhelgisgæslunnar hafi menn nákvæmlega sama mat á þessu máli. Ég tel að þar séu menn sem þekkja málið til hlítar, vilja því hið allra besta og hafi það kannski fram yfir aðra sem áreiðanlega vilja vel í þessu máli líka, að þeir hafa mjög ítarlega og yfirgripsmikla þekkingu á þessu. Þeir hafa kannað það lengi og vel og þeir þekkja það niður í smæstu smáatriði. Þeir vita hvað er framkvæmanlegt og þeir vita líka hvað er hyggilegt að gera og þeir vita það líka hvort um það er að ræða að hægt sé að athafna sig t.d. ef einhver aukabúnaður er kominn í þyrlu sem ekki er ætluð til þeirra nota sem hér á við, björgunarstarfa við erfið skilyrði á norðurhjara.