Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:10:37 (5495)

     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ljóst að gagnfræðaskólinn er tekinn til starfa að nýju. Það kom bersýnilega fram hér áðan. Ég vil leyfa mér að inna hæstv. forseta eftir því hvort þetta frv. er þingtækt eða ekki. Hér hefur forsrh. fullyrt að málið sé óþinghæft. Ég tel náttúrlega að við það verði ekki unað og forseti geti ekki setið undir því að hér sé verið að eyða tíma þingsins í óþinghæf mál. Ég óska eftir úrskurði forseta hvort málið er þinghæft eða ekki? ( Gripið fram í: Það er búið að úrskurða það. Það var gert með því að samþykkja málið.) Ég óska eftir formlegum úrskurði forseta. ( Forseti: Það ætti ekki að þurfa að upplýsa hv. þm. um það að málið væri ekki komið þangað sem það er komið ef það hefði ekki verið þingtækt til að taka það til umfjöllunar. Síðan er það þingsins að úrskurða hvaða afgreiðslu það fær.) Gott, ég þakka hæstv. forseta fyrir svarið. En ég bað eingöngu um svarið fyrir hæstv. forsrh. Ég geri mér grein fyrir að hann hefur verið stutt á þingi, aðeins tvö ár, þannig að honum hefur greinilega ekki verið ljóst hvernig málum er háttað hér. Þannig að nú liggur það fyrir að hann fór með rangt mál hér áðan þegar hann sagði að málið væri óþinghæft.
    Ég hins vegar fór hér upp í andsvör vegna þess að ég vil fá svar við þeirri spurningu sem ég lagði fram. Afdráttarlaust svar um hvort á að nýta heimildina í 6. gr. og ganga til samninga um kaup á björgunarþyrlu á þessu ári eða ekki. Þetta er mjög einföld og skýr spurning. En það voru afar loðin svör hér áðan þannig að ég óska eftir að það verði gefið skýrt svar við því: Hyggst ríkisstjórnin ganga til samninga um kaup á nýrri björgunarþyrlu á þessu ári eða ekki?