Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:15:05 (5499)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að nýta allan þann tíma sem ég ella hefði til þess að bera fram mitt andsvar vegna þess að það var í raun og veru mjög stutt.
    Það er löng hefði fyrir því að sé ráðherra, sem fær heimild í fjárlögum til að ganga til ákveðinna verka, spurður um það hvort hann muni nýta þá heimild á því ári eða ekki, þá er aðeins eitt svar sem er afdráttarlaust, það er svarið já. Hæstv. forsrh. hefur verið beðinn um það vegna þess að hann gegnir líka embætti fjmrh. að segja það alveg skýrt með hefðbundnum hætti hér í þinginu hvort ákveðið hefur verið að nýta heimildina. Í fyrri ræðum sínum var hæstv. forsrh. mjög loðinn. Það skal virt að hann var aðeins skýrari hér í sinni síðustu ræðu. En við biðjum um skýrt svar. Ætlar ríkisstjórnin að nýta þá heimild sem hún fékk í lið 6.13 í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1991? Þar til sagt verður skýrt já, þá leikur vafi á því hvort ríkisstjórnin mun nýta þá heimild.