Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:33:54 (5506)

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf fyrir skömmu um að gengið yrði til samninga um kaup á nýrri björgunarþyrlu strax í vor. Ég fagna því mjög og vona að sjálfsögðu að við það verði staðið. Hins vegar get ég ekki tekið undir það með hæstv. ráðherra að það frv. sem hér er til umræðu hafi verið tímaeyðsla. Ég tel að þetta frv. hafi leitt til þess mikla sigurs sem við, stuðningsmenn björgunarþyrlu, erum nú að vinna. Hefði frv. ekki komið fram þá hefði til að mynda ekki verið sett inn í 6. gr. fjárlaga heimild til að taka lán til kaupa á björgunarþyrlu. Það var vegna þrýstings frá þessu frv. sem sú grein var sett inn og engu öðru. Vissulega var þetta þarft mál. Hefði heimildargreinin ekki verið til staðar hefði ríkisstjórnin ekki haft í annað hús að venda. Sá áfangasigur, sem er nú vinnast, er vegna þessa frv., vegna þess þrýstings sem frv. veitti. Sem betur fer er ríkisstjórnin að láta undan þrýstingi í málinu. Sem betur fer. Ég óska henni til hamingju með það. Það er okkur öllum til góðs og þjóðinni til góðs.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Ég tel engu að síður að það sé alveg nauðsynlegt að samþykkja frv. vegna þess að það mun ekki gera neitt annað en að styðja ríkisstjórnina í viðleitni sinni til að ganga endanlega frá málinu. Það getur ekki á nokkurn hátt skaðað málið. Ég skora á þá menn, sem halda því fram, að koma og færa rök fyrir máli sínu á hvern hátt frv. getur skaðað málið. Það getur ekkert annað en styrkt málið og því skora ég á hv. þm. að veita frv. brautargengi.
    Um ræðu hæstv. forsrh. ætla ég ekki að hafa mörg orð, ég mun setja hana í ,,fælinn`` á sama stað og ræðu hv. þm. Árna Johnsens fyrr í dag og ég mun því ekki eyða miklum tíma í það. Hann sagði að frv. hefði skaðað málið. Allir sem vilja sjá og átta sig á hver niðurstaða málsins er að verða sjá auðvitað að þetta er alrangt. Frv. verður til þess að íslenska þjóðin mun eignast björgunarþyrlu á árinu.