Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:37:11 (5507)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa miklar umræður farið fram um þyrlumál og er ekki nema gott um það að segja. Allir hafa talað um að nauðsyn væri á að íslenska þjóðin eignaðist þyrluna og það hefur komið fram í máli hæstv. forsrh. að svo verði gert á vordögum. Ýmis orð hafa fallið sem kannski hefðu verið betur ósögð vegna þess að það skiptir öllu að málið nái fram að ganga með hvaða hætti sem er. Því miður þurfti ég að bregða mér frá áðan en af því ég sá hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson í hliðarsal og mér var sagt að hann hefði látið orð falla í minn garð í þá veru að ég ynni sjómönnum heilt utan veggja hins háa Alþingis en með öðrum hætti innan veggja. Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að þessi hv. þm. endurflytji þá ræðu sem hann hafði í minn garð.