Happdrætti Háskóla Íslands

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 18:02:55 (5514)

     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til laga um breytingar á lögum nr. 13/1973, um Happdrætti Háskóla Íslands, með síðari breytingum. Með leyfi forseta vil ég lesa upp þær tvær greinar sem eru í þessu lagafrv. Þær eru svohljóðandi:
  ,,1. Síðasti málsliður e-liðar 1. gr. laganna orðist svo: Leyfishafi skal greiða 20% af nettóársarði til annarra skóla á háskólastigi í hlutfalli við fjölda nemenda í fullu námi á næstliðnu kennsluári og skal fénu varið til uppbyggingar skólanna.
    2. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994. Jafnframt fellur niður 2. tölul. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 48/1987.``
    Hvatinn að því að ég ákveð að flytja þetta frv. er sá að sé farið yfir sögu Happdrættis Háskóla Íslands, þá var einkaleyfið sem sett var á á peningahappdrætti hér á landi greiðsluskylt um 20% til ríkisins vegna þess að um raunverulegt einkaleyfi var að ræða. Nú hefur það gerst að ráðherrar sem farið hafa með dómsmrn. hafa vissulega verið nokkuð örlátir á að leyfa happdrætti og aðra starfsemi sem hefur gert það að verkum að Happdrætti Háskóla Íslands á í mikilli samkeppni. Ég ætla ekki að lasta það að svo hefur farið vegna þess að ég veit að fjármunir frá þessum happdrættum hafa allir farið til góðra mála. Mér finnst aftur á móti óeðlilegt að þessi 20% fari ekki eins og nú er ástatt til skólamála. Og mér finnst eðlilegt að það verði reynt að finna breiðari hóp velunnara happdrættisins. Hvernig er hægt að breikka þann hóp?
    Er það ekki rökrétt að líta svo á að þeir sem stundað hafi nám í Háskóla Íslands hljóti að vera velunnarar happdrættisins vegna þess að þeir hafa notið þeirra húsakynna sem happdrættið sá um að væru byggð? Ég tel að svo sé. Það er nefnilega merkilegt að þegar þetta happdrætti verður að veruleika árið 1933, flutt af menntmn. neðri deildar Alþingis, átti Háskóli Íslands ekkert hús en hafði þó verið starfandi frá 1911. Það frv. var sniðið eftir frv., sem samþykkt hafði verið og gert að lögum árið 1926 og hafði það verkefni að afla fjár fyrir aðra aðila, ef svo mætti komast að orði. Það var happdrætti fyrir Ísland og hafði ekki það markmið að vera stuðningshappdrætti fyrir háskólann.
    Ég hygg að nú standi mál þannig að aldrei sem nú hafi Happdrætti Háskóla Íslands verið þörf á því að fá fleiri velunnara. Það er ekkert leyndarmál að háskólakennsla fer nú fram á nokkrum stöðum öðrum í landinu. Þeir skólar eru mjög veikir að nemendafjölda og aðbúnaði miðað við það sem þyrfti að vera en með því að veita þeim tekjur af þessum 20%, sem á seinasta ári gáfu um 74 millj. ef ég veit það rétt og árið þar á undan um 70 millj., þá er þeim það nokkurt kappsmál að veita happdrættinu stuðning. Það gæti farið svo að þó að við tækjum ákvörðun um að veita Happdrætti Háskóla Íslands þessi 20% og að velunnurum happdrættisins yrði ekki fjölgað þá stæði hann jafn vel að vígi með þeirri tillögu sem hér er gerð ef það tækist að auka umsvif happdrættisins í leiðinni.
    Nú er mér ljóst að auðvitað hafa þessi 20% farið til góðra mála með því að fara í ríkissjóð. Um það er ekki deilt í sjálfu sér. Á seinustu árum hafa þau farið til að byggja upp vísindahúsnæði, ef svo mætti komast að orði, m.a. á Keldum. Það er m.a. þess vegna sem ég legg til að breytingin taki ekki gildi fyrr en árið 1994 að ég sé ekki að það sé skynsamlegt að ganga svo greitt fram í málinu að það raski þeim plönum sem nú liggja fyrir. En sá er á munurinn að í dag virðist varla nokkur stjórnmálamaður opna sinn munn í ræðustól án þess að lýsa því yfir að það eigi að veita fjármagn til vísindastarfsemi. Ríkisstjórnin er búin að setja stóran hluta ríkisfyrirtækjanna á sölu og stór hluti af því á að fara í það að byggja upp vísindastarfsemi. En þegar kemur að því að byggja upp húsnæði fyrir háskólana í landinu erum við aftur á móti í mun verri stöðu.
    Það merkilega er að skilningur manna á því hvað skipti mestu máli í þessu samfélagi virðist vera fyrst og fremst sá að það eigi að nýta auðlindir landsins, en það gleymist sem sumir hagfræðingar hafa haft mjög á oddinum, m.a. japanskir, að mestur auður hvers lands er þjóðin sjálf. Athyglisvert er hvort heldur við horfum til Svisslendinga eða til Japans eða skoðum ýmsar aðrar þjóðir sem ekki eiga náttúruauðlindir að þær hafa komist ótrúlega vel af vegna þess að þjóðin sjálf leysti þau vandamál sem við var að etja og skóp löndunum auð. Ég held þess vegna að það sé mikið alvörumál að snúa þeirri umræðu við sem verið hefur og að ekki sé litið á skólastarf í landinu sem einhverja ölmusustarfsemi, sem mér finnst ég heyra allt of oft, heldur sé litið á hana sem fjárfestingu til meiri arðs fyrir þjóðina og til meiri farsældar fyrir einstaklingana en flest annað sem við getum gert.
    Ég játa að mér hefur verið nokkur raun að því að stundum hefur það gerst eins og nokkurrar öfundar gætti á milli háskólamanna eftir því hvort þeir störfuðu við Háskóla Íslands eða t.d. Háskólann á Akureyri. Ég vona að slíkar raddir hljóðni allar. Þeir eru samverkamenn til góðra verka fyrir þetta samfélag og eiga að vera þeim gáfum og þroska búnir að þeir verði ekki til að valda deilum á milli háskólanna á Íslandi sem vissulega eru fleiri en þessir tveir. Verður mér þá ekki síst hugsað til míns gamla skóla, Kennaraháskólans. Að vísu var hann enginn kennaraháskóli þá aðeins kennaraskóli því ég hef aldrei farið í háskóla.

    En burt séð frá því er mér ljóst að það geta verið misjafnar skoðanir á því hvernig eigi að standa að þessu máli. Þetta er aftur á móti það sem ég tel að beri að gera, að tryggja það að allur arðurinn af Happdrætti Háskóla Íslands fari til að efla háskólanám í landinu. Mér finnst einhvern veginn að í umræðu daganna, þeirra síðustu í það minnsta, sé miklu meiri hugur hjá atvinnuvegum og stjórnmálamönnum að styðja vísindastarfsemina, sem er vissulega góðra gjalda vert, en minni skilningur á því að það er maðurinn sjálfur sem er mesti auður hverrar þjóðar og því aðeins náum við Íslendingar langt í félagi þjóðanna að við gleymum því ekki. ( Forseti: Hvert á að vísa málinu?)
    Herra forseti. Svo upptekinn getur maður verið af eigin hugsun að maður gleymi því hvernig eigi að ljúka framsögu fyrir frv. og vil ég þakka forseta fyrir að minna mig á. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.