Happdrætti Háskóla Íslands

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 18:17:27 (5515)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Þetta frv. sem hér liggur fyrir á þskj. 609 er e.t.v. allra góðra gjalda vert og ég ætla raunar ekki að gera það beinlínis að umræðuefni. Hins vegar er það svo þegar mál koma fram að þingmönnum gefst ekki alltaf kostur á að þrautkanna hvert mál og það rann skyndilega upp fyrir mér þegar ég fór að lesa lög um Happdrætti Háskóla Íslands, lög nr. 13/1973, að þar segir afdráttarlaust að leyfishafi, þ.e. háskólinn, greiði í ríkissjóð 20% af nettóársarði í einkaleyfisgjald. Þetta þarf enginn að undrast. Um langt skeið hafði Háskóli Íslands einkaleyfi á rekstri happdrættis. Síðan fór ég að kanna hvort slíkt ákvæði væri í öðrum lögum um happdrætti sem síðar komu til. Í lögum um vöruhappdrætti fyrir Samband ísl. berklasjúklinga, lögum um happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna og lögum um getraunir er raunar ekki að finna neitt slíkt ákvæði um að þessi happdrætti eigi að greiða einkaleyfisgjald nema það sé að finna í reglugerðum sem ég hafði ekki tíma til að kynna mér.
    En því segi ég þetta hér að ég vil biðja hv. nefnd sem fær málið til meðferðar að kanna hvort þetta einkaleyfisgjald sé ekki orðið úrelt. Ég fæ ekki séð með nokkru móti að Háskóli Íslands hafi neitt einkaleyfi nema þá að öll þessi happdrætti hafi einkaleyfi hvert á sinn hátt. Færi svo að það reyndist rétt hjá mér að þarna sé háskólinn að greiða gjald sem aðrir greiða ekki, þá sé ég ekki betur en komin séu 20% sem hv. 2. þm. Vestf. er að biðja um til annarra skóla.
    Ég vildi koma þessu að vegna þess að ég fæ ekki séð að þessi kvöð sé á öðrum happdrættum. En, frú forseti, ég skal gera þann fyrirvara við þá fullyrðingu að mér hefur ekki gefist tími til þess, að ná mér í reglugerðir sem samkvæmt lögunum ber að setja um happdrættin. Ég vildi því biðja hv. 2. þm. Vestf. að verða til þess, þar sem hann er sá eini sem áhuga hefur á málinu og mál mitt heyrir, að óska eftir því að þetta verði sérstaklega kannað. Annað þarf ég ekki að leggja í þessa umræðu.