Happdrætti Háskóla Íslands

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 18:23:53 (5517)

     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég þakka þeim sem hér hafa staðið upp og rætt þetta mál og lýst jákvæðu hugarfari til þess. Það er fyrst til að taka að aðrir aðilar greiða ekki einkaleyfisgjald vegna þess að þannig er litið á að þeir búi allir við þá kvöð að verða að hafa vöruhappdrætti nema lottóið. E.t.v. er ástæðan fyrir því að þar hefur ekki verið um gjaldtöku að ræða sú að tveir aðilar sóttu það fast að fara af stað með lottóið. Ég tel að íþróttahreyfingin og fatlaðir hafi átt mjög gott samstarf í rekstri þess. Ég lagði til þegar þessi deila hófst á sínum tíma að ekki yrði farið af stað með tvö lottó, menn gerðu ekki slíka hluti, heldur mundu þessir aðilar vinna saman. Ég mun ávallt verða hreykinn af því að sú niðurstaða fékkst. Um það má vissulega deila hvort þeir ættu að greiða eitthvert gjald af því að vera einu aðilarnir sem fá að reka lottó.
    Hitt er annað mál að ég er ekki viss um að það væri góður hlutur fyrir Happdrætti Háskólans að taka einkaleyfið af, þ.e. heimila ráðherra að veita öðrum happdrættum leyfi til þess að reka peningahappdrætti. Það er þrátt fyrir allt nokkurt forskot sem felst í því að mega reka peningahappdrætti, menn hafa

ekki alltaf mikinn áhuga á þeim hlutum sem þeir eiga í boði hinsegin og ég tel að farsæld happdrættisins felist m.a. í því að það hefur verið peningahappdrætti. Hinu er ekki heldur að leyna og það vil ég að komi fram þar sem hv. 14. þm. Reykv. innti grannt eftir þessu að þeir sem settu happdrættið af stað á sínum tíma vissu að þarna var um mikla fjármuni að ræða. Þeir vildu taka eitthvert einkaleyfisgjald í ríkissjóð fyrir að veita þetta.
    Svona til gamans vil ég geta þess að þegar Fákur fékk leyfi til að reka veðbanka í sambandi við kappreiðar og kappróður, sem var líka heimilt að veita, var ætlast til þess að 10% af hagnaði hestamannafélaganna af slíkri starfsemi færi til reiðvega og 75% af hagnaði er yrði af kappróðri sjómannadagsráðanna, sem fari fram á sjómannadaginn, rynni í sjóminjasafn. En þá var líka gert ráð fyrir að menn veðjuðu en stæðu ekki bara og klöppuðu þegar menn væru búnir að ná rásmarkinu. Ég get þessa meira til gamans.
    En það sem ég vildi undirstrika og bið hv. 14. þm. Reykv. að hugleiða mjög vel, af því það var stórt atriði í mínu máli, að Happdrætti Háskólans hefur heldur verið að dragast saman miðað við það sem var og það sem því ríður mest á er að fá fleiri velunnara. Ég hugsaði sem svo: Ef þessum 20% verður dreift til annarra skóla á háskólastigi þannig að gamla markmiðið að þessir fjármunir fari til að byggja upp kennslu á háskólastigi á Íslandi verður virt þá er ég sannfærður um að velunnurum happdrættisins mun fjölga verulega. Því er ekki víst að þetta sé neitt verri kostur fyrir Háskóla Íslands en ef hann hefði fengið að halda þessum 20% og að velunnurunum hefði ekki fjölgað. Auðvitað er þetta hugleiðingar mínar og mat mitt og auðvitað hefur hver sínar skoðanir á því.
    En að lokum: Það var víst deiluefni á sínum tíma í hvaða nefnd þetta ætti að fara. Árið 1933 fór þetta til efnahagsnefndar en 1. flm. lagði þá til að það færi til allshn. Nú hagar þessu svo að það er dómsmrh. sem er æðsti yfirmaður og að ábendingu forseta vil ég breyta fyrri tillögu minni og leggja til að þetta fari ekki til menntmn. heldur að málinu verði vísað til allshn.