Happdrætti Háskóla Íslands

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 18:30:08 (5518)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf mér varðandi þessi einkaleyfismál, en því hóf ég máls á þessu að ég hef áhyggjur af að nú sé mjög hert að Happdrætti Háskóla Íslands. Ég sé ekki betur en nú sé búið að gera samninga við norrænt happdrættisfyrirtæki, þ.e. nýtt lottó, þar sem dregið skal á miðvikudögum en í hinu lottóinu er dregið á laugardögum. Ég held að einhver möguleiki hljóti að vera á því að þessi markaður verði mettaður og mér sýnist að samkvæmt þessu verði t.d. þetta norræna lottó ekki krafið um ein eða nein leyfisgjöld. Það kom mér að vísu svolítið á óvart að leyfisveitingin virðist ekki þurfa að koma neitt fyrir þingið eins og almennt hefur verið um happdrætti þannig að ég er ekki eins bjartsýn eins og 2. þm. Vestf. að Happdrætti Háskóla Íslands verði sá tekjustofn í framtíðinni sem það hefur verið og ég tel það mikinn skaða. Ég held að við hefðum átt að gera allt til að efla það fremur en hleypa fleiri og fleiri stórhappdrættum inn í landið og eins og ég segi, einhvers staðar hljóta að vera takmörk fyrir því hvað fólk getur látið af mörkum í slíkt.