Happdrætti Háskóla Íslands

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 18:31:47 (5519)

     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það kemur einmitt mjög skýrt fram í umræðu um þetta mál árið 1926 þegar fyrst er farið af stað með hugmyndina um að stofna happdrætti að menn vilja ekki leyfa erlendum aðilum að fara í það að selja hér happdrættismiða. Ég er sömu skoðunar og þeir voru árið 1926. Ég er andvígur því að hleypa erlendu lottói inn í landið. Þetta eru viðhorf mín og við erum vonandi sammála um það, hv. 14. þm. Reykv., að það er ekkert sem mælir með því að þetta sé gert. Ég vil bæta því við að þegar talað var um lögin um happdrætti og hlutaveltu árið 1926 var ,,lotterí`` haft í sviga þannig að menn sjá hvað þetta er líkt. Það held ég að sé líka haft með í sviga 1933. En burt séð frá því þá er ég sannfærður um það að menn spila af tvennum hvötum í Happdrætti Háskóla Íslands og það vona ég að Íslendingar muni alltaf gera. Það er ekki bara upp á að fá peningana, það er upp á að fá stóra vinninginn sem happdrættið hefur líka hampað, þann ávinning sem íslenska þjóðin hefur af því að peningar fari til þess að efla háskólamenntun í landinu.