Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:29:53 (5524)

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseta hefur borist formleg umsókn um þá málsmeðferð sem hv. 1. þm. Austurl. kynnti hér. Í 23. gr. þingskapalaga segir svo:
    ,,Áður en 1. umr. fer fram um stjfrv. eða fyrri umræða um tillögur frá ríkisstjórninni getur forseti heimilað, ef ósk berst um það frá níu þingmönnum, að nefnd athugi mál í því skyni að afla frekari upplýsinga um það eða skýringa á efni þess. Slíkt er og heimilt að gera að lokinni framsöguræðu um málið. Forseti ákveður hve lengi athugun nefndarinnar má standa.``
    Eins og hv. þingheimur hlýtur að skilja vil ég að sjálfsögðu ráðgast við forseta Alþingis um þetta mál og hlýt því að óska eftir fundarhléi til að ræða við hæstv. ráðherra og virðulegan forseta Alþingis.