Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:38:19 (5528)

     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það ákvæði sem hér er vitnað til í þingsköpum er nýtt og var sérstaklega tekið inn við endurskoðun þingskapalaga á árinu 1991 eins og margir muna eftir. Í þeirri nefnd sem hafði þær breytingar til athugunar --- en það var á þeim vettvangi sem þessi tillaga um breytingu kom fram --- var þetta mál sérstaklega rætt og á það fallist hjá þeim sem með þessa tillögu kom, sem var einmitt hv. 1. þm. Austurl., að það gæti verið gagnlegt í flóknum málum og mundi greiða fyrir slíkum málum að almennir nefndarmenn fengju tóm, til að mynda að lokinni framsöguræðu, til þess að ræða við ýmsa sérfræðinga og aðra sem hefðu komið að smíði umfangsmikilla frv. Það mundi greiða fyrir þingstörfunum og undirbúa menn betur til þess að taka þátt í umræðum á faglegum grundvelli við 1. umr.
    Ég er þess vegna alveg sammála því að það gæti greitt fyrir þessu máli og sé eðlilegt að þessi leið verði farin og leggst ekki gegn því, tel reyndar að það sé algerlega á valdi forseta að úrskurða um það að fenginni þessari ósk. Ég tel reyndar að það gæti greitt fyrir störfunum og gert það að verkum að nefndin þyrfti minni tíma eftir að búið er að vísa því formlega til hennar heldur en ella væri. Þetta vildi ég að kæmi hér fram. En e.t.v. er samt eðlilegt að gera hér stutt hlé til þess að allir þingflokkar og forsetar þingsins geti ráðgast um þetta því að þetta mun vera í fyrsta sinn sem formleg ósk kemur um að beita þessari heimild.
    Ég vil síðan, virðulegi forseti, einungis taka það fram að ummæli hv. 8. þm. Reykn. hér og aðdróttanir í garð hæstv. viðskrh. eru auðvitað afskaplega ósmekklegar í þessari umræðu og eiga hér ekki heima.