Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:52:15 (5534)

     Halldór Ásgrímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er kannski eðlilegt þegar þessu þingskapaákvæði er fyrst beitt að um það séu nokkrar umræður. En ég vil taka það fram vegna orða hv. 11. þm. Reykn. að ég tel að í máli sem þessu sé það eðlilegt að slík ósk komi fram, hvort eigi að ræða slíka ósk fyrir fram er sjálfsagt að taka til athugunar og skapa einhverjar fastar venjur um. En ég vil taka það skýrt fram að hér er á engan hátt verið að óska eftir þessu til þess að draga þetta mál á langinn þó að ég skilji hins vegar ekki hvað liggur mikið á í þessu máli. Það verður hæstv. viðskrh. að útskýra síðar. Ég tel að það hafi ekkert komið fram um það að Seðlabankann bráðvanti stjórntæki til þess að hjálpa núv. ríkisstjórn að ráða við efnahagsvandann. Ég tel að Seðlabankinn hafi þau stjórntæki ef vilji er til að beita þeim. En ef svo er, er sjálfsagt að greiða fyrir því að bankinn fái nauðsynleg stjórntæki. En það þarf ekki að þýða að það þurfi að hraða svo mjög heildarendurskoðun seðlabankalaganna. Við höfum í allan vetur verið að breyta löggjöf að því er varðar fjármagnsmarkaðinn og efh.- og viðskn. hefur starfað vel að þeim málum og með þeim breytingum hefur bankakerfið fengið ýmsar heimildir sem áður voru ekki fyrir hendi. Ég tel þetta því vera eðlilega beiðni og það ætti að beita þessari aðferð í mun fleiri tilvikum eins og hv. 8. þm. Reykv. kom inn á. Ég er viss um að það mundi oft og tíðum greiða fyrir málum og e.t.v. stytta umræður en mér hefur skilist að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn væri mjög áhugasamur um það að stytta umræður á Alþingi svo ekki sé nú talað um forustumann ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., sem talar um það annan hvern dag hvað umræður á Alþingi séu langar og hve mikið sé um málþóf. Ég hélt að þetta gæti nú allt saman þjónað betri störfum hér á Alþingi.