Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 14:22:41 (5554)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segir að þetta sé ekki frv. sem sé stórt í sniðum og ég get vissulega tekið undir það að sumu leyti. Hér eru tilefndar 25 greinar sem fjalla um það að við eigum að samræma okkar lög þeim reglugerðum ráðsins eða framkvæmdastjórnar EB og af þessum 25 tilskipunum eða reglugerðum eru aðeins þrjár sem snerta okkur að einhverju leyti. Það er ekki einu sinni að þær snerti okkur að öllu leyti. Þetta eru reglugerðir nr. 1, nr. 2 og nr. 5 vegna þess að þær koma inn á vegamálin líka, þ.e. um bókhaldsyfirlit yfir útgjöld vegna samgöngumannvirkja, að samræma eyðublöð í því skyni, og síðan um tilhögun samráðs og skipan nefndar til að fjalla um samgöngumannvirki. Þetta er það eina sem snertir okkur eitthvað og kemur í raun og veru líka inn í bandorminn svokallaða sem lagður var fram í haust og tók til bæði vegamála, ferðamála, siglingamála og fleira. Þessi atriði sem ég nefni hér, þessi þrjú, eru í raun og veru þar inni líka þannig að það gerir þetta frv. hér, hvað okkur varðar, algerlega óþarft. Ég skil hreint ekki hvers vegna, ég hef ekki náð að skilja það þó hæstv. ráðherra hefði verið að reyna að útskýra það hér áðan að það væri nauðsynlegt fyrir okkur að taka þetta frv. hér til afgreiðslu og afgreiða það sem íslensk lög. Ég skil ekki að við þurfum að hlaupa upp til handa og fóta undir eins og afgreiða allar reglugerðir og tilskipanir EB þegar þær koma á engan hátt inn á það sem okkur varðar hér á Íslandi eins og menn hafa reyndar verið að gera grein fyrir hér á undan mér. Og hvað það varðar að samgn. eigi að fara að fjalla um þetta frv. og skoða allar þær reglugerðir sem tengjast skipgengum vatnaleiðum, járnbrautum o.fl., þá vísa ég því algerlega á bug. Ég á sæti í samgn. og ég sé ekki að tíma mínum sé vel varið með því að fjalla um annað eins frv. og þetta.