Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 14:42:34 (5556)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, flutti hér athyglisverðar ábendingar um vinnubrögð Alþingis að málum af þessu tagi. Er nú mjög slæmt að hæstv. utanrrh., sem ber ábyrgð á samningum Íslands við erlend ríki, skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu og einnig miður að hæstv. forsrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu. Það er auðvitað nauðsynlegt að forsetadæmið hér á Alþingi tryggi að viðkomandi ráðherrar séu til taks þegar þarf að ræða viðamikil mál í þinginu.
    En ég kvaddi mér hér hljóðs til að vekja athygli hv. þm. á því og jafnframt hæstv. samgrh., að fram hafa komið upplýsingar um að mikið vanti á að aðildarríki Evrópubandalagsins hafi sjálf staðfest stóran hluta þeirra reglugerða sem ætlast er til að séu hluti af innri markaðinum sem Evrópska efnahagssvæðið tekur til. Það voru nýlega birtar upplýsingar sem sýna að mjög há prósentuhlutföll, talin í tugum prósenta, sem mæla þær reglugerðir og samþykktir Evrópubandalagsins sem ekki hafa fengið lagagildi í aðildarríkjunum. Þess vegna vekur það nokkra furðu ef ríkisstjórn Íslands ætlar að fara að kappkosta núna að biðja Alþingi að taka tíma í að ræða frv. sem felur í sér lögtöku reglugerða sem á engan hátt tengjast Íslandi þegar ljóst er að sjálf aðildarríki Evrópubandalagsins telja eðlilegt að skilja verulegan hluta reglugerðanna utangarðs a.m.k. nú og jafnvel á næstu árum. Þess vegna vil ég nú að hv. þm. hafi það einnig í huga og jafnframt hæstv. samgrh. sem er að bera þinginu á brýn málþóf, hugleiði þá staðreynd að jafnvel sjálf aðildarríki Evrópubandalagsins telja fullkomlega gerlegt að láta það bíða að lögtaka mikinn fjölda tilskipana og reglugerða.