Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 14:45:00 (5557)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég tel að það sé mjög eðlilegt að það komi fram hér eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gat um að innan EB er mikil tregða að samþykkja allt það sem topparnir hafa óskað eftir að yrði staðfest, það er mikil tregða. Annað slagið heyrast hróp frá Brussel þar sem kvartað er undan þessu. Jafnframt spyr maður sig líka þeirrar spurningar: Hvað er með þennan frjálsa markað ef atburðir eins og þeir sem gerðust á fiskmarkaðnum í Frakklandi eiga sér stað? Ég fæ nú ekki séð að það sé mikið frelsi í innflutningi ef slíkir atburðir gerast og enginn virðist ráða við neitt. Ég hef ekki nokkra trú á að þeir sem veltu þar um borðum verði nokkurn tímann dregnir til saka fyrir það tiltæki. Frakkar telja þetta sem hluta af sinni þjóðmenningu að mega verða vitlausir þegar þeim sýnist. Og það yrði talið árás á persónufrelsi manna ef einhverjir væru að skipta sér af þessu eftir á. Ég vona nú að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi ekki metið mína ræðu svo að ég teldi það brýnasta verkefnið að hraða þessu máli í gegnum þingið.