Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 15:01:04 (5562)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er bersýnilegt að fyrir hv. þm. vakir ekki annað en reyna að tefja þingstörf og efna til málþófs. Ef honum hefði verið alvara í því að óska eftir að umræðum yrði frestað vegna þess að viðkomandi ráðherrar eru fjarverandi hefði hann að sjálfsögðu rætt það við mig í upphafi þessa fundar eins og venja er til. Það eru kannski 14 dagar síðan flokksbróðir hans ræddi við mig um að fresta því að ég mælti fyrir stjfrv. þar sem menn væru fjarverandi þá umræðu. Ég varð góðfúslega við því enda eru fleiri mál á dagskrá í dag sem varða samgrn. en þetta eitt. En hitt að fara fram á að hann fái tækifæri til að endurtaka sömu ræðuna aftur er algerlega út í hött og óhjákvæmilegt, herra forseti, að óska eftir því við hv. þm. að hann reyni að fara eftir þeim venjum sem hér hafa viðgengist. Ef þess er óskað að umræðu sé frestað á að gera það áður en hún hefst með drengilegum hætti en ekki hlaupa síðar meir eftir umræðu í þeim tilgangi einum að halda uppi málþófi.