Flutningar á járnbrautum

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 15:05:51 (5566)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég hlýt að endurtaka það sem ég sagði áðan að ég hef reynt eftir fremsta megni, ef stjórnarandstaðan hefur farið fram á að breytt sé dagskrá á fundum, að verða við þeirri beiðni. Það hefur komið fyrir af þeim sökum að það hefur dregist um nokkurn tíma að unnt sé að vísa málum til nefndar. Ég tel þess vegna ekki rétt að farið nú þegar það lá fyrir hér í upphafi fundar að forsrh. var ekki við og þegar það lá líka fyrir að utanrrh. var ekki hér við umræðuna. Ég geri ráð fyrir að þeir sem sjá til þeirra stóla þar sem þeim er ætlað að sitja og sjá að þeir eru ekki viðstaddir geti áttað sig á því að þeir séu fjarri. Þá hefði verið auðvelt að taka upp umræður um vegalögin eða umræður um áburðarverksmiðjuna til að nýta tímann. Það vill svo til að þingfundir hafa legið niðri í tvo daga vegna funda Norðurlandaráðs. Ég tel líka að það skipti máli fyrir fleiri en ráðherra að þingstörfin megi ganga vel. Þess vegna finnst mér eðlilegt að koma með þessa ábendingu.
    Það kostaði stjórnarandstöðuna ekkert að óska eftir því við forseta að önnur röð yrði höfð á þeim málum sem hér eru á dagskránni. Þess vegna ítreka ég það sem ég sagði áðan að það hefði auðvitað verið bæði eðlilegt, þinglegt og skynsamlegt að bera þessar óskir fram í upphafi en koma þeim ekki fram á síðustu stundu og svo seint að mér virtist hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson rétt hanga í því að biðja um orðið um þingsköp áður en búið var að ljúka umræðunni. Ég varð því ekki var við það af þeim sökum að almennar óskir væru uppi meðal þingmanna um að þessari umræðu yrði slegið á frest og þess óskað að utanrrh. og forsrh. kæmu að málinu.